Breyting á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 13:39:04 (737)

1999-10-20 13:39:04# 125. lþ. 13.2 fundur 54. mál: #A breyting á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[13:39]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Svarið við spurningu hv. þm. er að utanrrn. fer samkvæmt lögum um utanríkisþjónustuna og reglugerð um Stjórnarráðið með samningagerð við önnur ríki og aðild Íslands að alþjóðlegum samtökum, stofnunum, ráðstefnum og fundum er varða opinbera hagsmuni og ekki fellur undir annað ráðuneyti samkvæmt lögum, reglugerðinni um Stjórnarráðið eða eðli máls.

Samkvæmt þessu fer utanrrn. að meginstefnu til með öll mál er varða samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir og hefur fyrirsvar gagnvart þeim fyrir hönd íslenska ríkisins út á við. Bæði lög um utanríkisþjónustuna og stjórnarráðsreglugerðin geyma heimildir til að víkja frá þessari meginreglu. Slík frávik hafa þó ekki verið gerð nema í algerum undantekningartilvikum, enda standa veigamikil rök til þess að hafa utanríkismál og samningagerð við önnur ríki á einni hendi.

Segja má að þessi frávísunarheimild hafi ekki verið nýtt nema í tveimur undantekningartilvikum. Annars vegar hefur viðskrn. farið með mál er varða skipti Íslands við alþjóðleg efnahagssamtök og fjármálastofnanir. Til þess liggja sögulegar ástæður þar eð viðskrn. fór lengst af með málefni allrar milliríkjaverslunar og samvinnu við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir á sviði efnahagsmála. Af þeim sökum hafa samskipti við nokkrar slíkar heyrt undir viðskrh. en þróun á síðari árum hefur þó orðið sú að mál er þær varða hafa eitt af öðru verið flutt til utanrrn. þar á meðal um Efnahags- og samvinnustofnun og Þróunarstofnun OECD, en það var gert 1994, og Alþjóðabankann og systurstofnanir hans en það var flutt 1996.

Hins vegar var umhvrn. til skamms tíma falið sérstaklega að fara með mál er varða alþjóðasamskipti og samvinnu á sviði umhverfismála. Þetta ákvæði var tekið í stjórnarráðsreglugerðina við stofnun umhvrn. 1990 og hlýtur að teljast nokkuð einstakt í sinni röð. Það á sér reyndar ákveðnar skýringar í því hversu erfiðlega þáverandi ríkisstjórn gekk að færa verkefni til hins nýja ráðuneytis, eins og þeir muna sem fylgdust með aðdragandanum að stofnun þess. Ekkert annað ráðuneyti býr hins vegar að slíku ákvæði, enda var það bæði óljóst samkvæmt efni sínu og féll ekki vel að því kerfi sem reglugerðin gerir að öðru leyti ráð fyrir.

Enda þótt sams konar ákvæði um alþjóðlegt samstarf sé ekki að finna í upptalningu mála er önnur ráðuneyti fara með hafa þau vitaskuld ekki farið varhluta af þeim vexti sem verið hefur í alþjóðlegum samskiptum síðustu áratugina og fundum æðstu ráðamanna á þeim vettvangi. Flest eða öll ráðuneytin eiga nú í einhvers konar samstarfi við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir af ýmsu tagi, enda tekur stefnumótun í vaxandi mæli og á æ fleiri sviðum mið af þróun mála á alþjóðavettvangi. Að þessu leyti eru alþjóðleg samskipti umhvrn. ekki frábrugðin störfum annarra ráðuneyta.

Ákvæðið um að umhvrn. færi með mál er varða alþjóðasamskipti og samvinnu á sviði umhverfismála þótti hins vegar óeðlilegt með tilliti til þess skipulags sem reglugerð um Stjórnarráðið gerir að öðru leyti ráð fyrir, bæði gagnvart utanrrn. og öðrum ráðuneytum. Í framkvæmd er þó ekki gert ráð fyrir að brottfall þess valdi neinum stórvægilegum breytingum í daglegum störfum ráðuneytisins.

Í þessu efni er mikilvægt að gera greinarmun á því með hvaða hætti utanrrn. annars vegar og fagráðuneytin hins vegar koma að alþjóðlegu starfi. Aðkoma fagráðuneytanna að slíku starfi er ólík aðkomu og ábyrgð utanrrn. með tilliti til þess forustu- og samræmingarhlutverks sem því er ætlað að gegna, bæði inn á við og út á við, gagnvart öðrum ríkjum og fjölþjóðastofnunum. Þannig verður til að mynda að gera kröfu til að utanrrn. hafi á hverjum tíma yfirsýn yfir þróun mála á alþjóðavettvangi og sjái til þess að hagsmuna okkar sé gætt þar eftir því sem þörf krefur. Slík yfirsýn fæst ekki nema yfirstjórn utanríkismála sé sem mest á einni hendi.

Þá er samningagerð við önnur ríki og fjölþjóðlegar stofnanir í eðli sínu flókið tæknilegt viðfangsefni. Eðlilegt er því að hún sé almennt á einni hendi og sérfræðiþekking í gerð þeirra byggð upp á einum stað. Á hinn bóginn hlýtur eðli málsins samkvæmt mjög að vera byggt á sérfræðiþekkingu starfsmanna einstakra ráðuneyta í alþjóðlegu starfi, bæði við undirbúning og framkvæmd samninga. Enn fremur hlýtur mjög að vera byggt á mati þeirra á því hvenær sé rétt og tímabært að fullgilda skuldbindingar íslenskra stjórnvalda gagnvart erlendum aðilum. Þannig hafa umhvrn. og stofnanir er undir það heyra til að mynda sinnt samskiptum við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, skrifstofu nefndar um sjálfbæra þróun og skrifstofur alþjóðlegra umhverfissamninga um loftslagsbreytingar, líffræðilega fjölbreytni, varnir gegn mengun hafsins, loftmengun og náttúruvernd, og verður svo áfram.

Að þessu sögðu vil ég aðeins ítreka að breytingin sem gerð var á stjórnarráðsreglugerðinni hinn 28. maí sl. miðar samkvæmt þessu ekki að öðru en því að skýra línur í verkaskiptingu og ábyrgð hvors ráðuneytis um sig, umhvrn. og utanrrn., og taka af tvímæli um þá verkaskiptingu og samstarf sem í framkvæmd hefur verið viðhöfð milli ráðuneytanna tveggja um alllanga hríð.