Breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 13:58:20 (748)

1999-10-20 13:58:20# 125. lþ. 13.3 fundur 26. mál: #A breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[13:58]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans og hv. þingmönnum fyrir þátttökuna í þessari umræðu. Maður heyrir að sjálfsögðu í þessum sal að mjög skiptar skoðanir eru um þetta mál og svo hefur lengi verið. Ég held samt að öllum sem tala hér sé annt um velferð stofnunarinnar og um að hún sem slík fái tækifæri til að taka þátt í þeirri samkeppni og eðlilegum rekstri sem fyrirtækjum á sama sviði gefst færi á, þ.e samstarfi. Við vitum vel að ríkisstofnunum eru ýmsar skorður settar í að taka þátt í samstarfi og stofnun fyrirtækja sem önnur fyrirtæki í sama rekstri geta nýtt sér. Það var ein af ástæðunum fyrir því að menn töldu nauðsynlegt að breyta Pósti og síma í hlutafélag. Það gilda í rauninni nákvæmlega sömu rök fyrir Ríkisútvarpið sem stofnun eins og fyrir Póst og síma á sínum tíma.

Herra forseti. Þess vegna vil ég fagna yfirlýsingu hæstv. menntmrh. um að verið sé að vinna að því að leggja fram frv. í þinginu síðar. Ég vona að þau drög verði til þess að samstaða náist um þetta mál í þinginu. Ég tek undir það að mjög nauðsynlegt er að mjög góð samstaða sé um þær breytingar sem ég tel nauðsynlegar og hef talað fyrir.

Ég vil mótmæla orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að verið sé að leggja Ríkisútvarpið í einelti. Það er af og frá. Fyrst og fremst er verið að leita leiða til þess að styrkja þessa stofnun. Ég kalla það sérlega mikla skammsýni og í raun öfugmæli að tala um umræðu um þessa virðulegu stofnun sem einelti.