Breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:00:37 (749)

1999-10-20 14:00:37# 125. lþ. 13.3 fundur 26. mál: #A breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég held að menn hafi getað heyrt að skemmst náum við í umræðum um Ríkisútvarpið ef við tileinkum okkur málflutning eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon um málefni Ríkisútvarpsins. Slíkur málflutningur er síst til þess fallinn að taka á málefnum þess í ljósi þeirrar stöðu og þeirra verkefna sem blasa við stofnuninni.

Varðandi spurningar um nýja sjónvarpsrás hef ég þegar svarað því að ég er ekki talsmaður þess að Ríkisútvarpið hefji útsendingu á nýrri sjónvarpsrás. Ég hef hins vegar bent á að allt umhverfi í sjónvarpsrekstri er að taka miklum breytingum. Rásunum á eftir að fjölga um tugi ef ekki hundruð á næstu árum þegar stafrænt kerfi verður tekið upp. Þá verður spurningin: Hvernig ætlum við að standa að því að framleiða gott íslenskt efni fyrir allar þær rásir? Hvernig ætlar ríkissjóður að koma að því? Ætlar ríkisvaldið að koma að því? Ætla stjórnmálamenn að koma að því? Það má frekar velta því fyrir sér en því hvernig einstökum stofnunum er háttað. Markmiðið með þessu starfi, ef ríkið kemur að þessum verkefnum, hlýtur að vera að tryggja að framleitt sé gott íslenskt efni fyrir íslenska áhorfendur og áheyrendur en ekki hitt að stofnanir, sem hafa kannski ekki staðist tímans tönn, lifi áfram. Það verða menn að hafa í huga þegar þeir ræða þessi mál og þær miklu breytingar sem fram undan eru á þessu sviði. Umhverfið er að gjörbreytast. Ein rás til eða frá skiptir ekki meginmáli í því efni.

Spurt var um ákveðin atriði og ég hef svarað þeim. Ég hef lýst því hvernig þetta hefur borið að ráðuneytinu með formlegum hætti frá Ríkisútvarpinu. Það er alveg ljóst að forustumenn Ríkisútvarpsins hafa sett fram þá ósk að því verði breytt í hlutafélag.