Útsendingar sjónvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:13:36 (754)

1999-10-20 14:13:36# 125. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A útsendingar sjónvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:13]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Nú eru liðin rúmlega 30 ár síðan sjónvarpsútsendingar á vegum Ríkisútvarpsins hófust hér á landi. Öllum er kunnugt um hversu mikilli byltingu það olli víða um landið. Okkur er líka ljóst að framboð á sjónvarpsefni, bæði erlendu og innlendu, hefur farið vaxandi ár frá ári. Það er óhætt að segja og engar ýkjur í því að það að geta notið þessa sjálfsagða miðils er snar þáttur í lífsmynstri venjulegs fólks víða úti á landi.

Því miður er það ansi víða, eða á allnokkrum bæjum, svo að menn geta ekki náð sjónvarpsútsendingum og sums staðar eru sjónvarpsskilyrðin slík að óviðunandi verður að teljast þó e.t.v sé hægt að rýna í myndina með góðum vilja.

Mér er kunnugt um að á nokkrum stöðum þar sem þetta hefur komið upp hafa menn orðið að endurnýja sjónvarpsbúnað sinn sem hefur gengið úr sér í tímans rás. Þá hefur gengið á ýmsu og menn hafa kvartað, bændur m.a., undan því að það seint gangi fyrir sig að fá úr því bætt að laga sjónvarpsskilyrðin að nýju þó að menn hafi búið við sjónvarpsútsendingar um nokkurra ára skeið. Þess vegna hef ég leyft mér, virðulegi forseti, á þskj. 43 að leggja fyrir hæstv. menntmrh. nokkrar spurningar um útsendingar sjónvarpsins:

,,1. Á hversu mörgum sveitabæjum nást ekki útsendingar sjónvarps? Hvar eru þessir bæir, sundurliðað eftir sýslum?

2. Á hversu mörgum bæjum nást útsendingar sjónvarps nú þar sem þær náðust ekki fyrir þremur árum?`` Hugsunin með þessari spurningu er að reyna að draga fram hvort okkur hafi miðað nokkuð áleiðis í þessum efnum eða hvort við höfum staðið í stað eða hvort þróunin hafi kannski verið á hinn verri veg.

,,3. Eru dæmi um að einstökum ábúendum jarða þar sem útsendingar sjónvarps nást nú sé gert að annast fyrir eigin reikning viðhald og endurnýjun móttökubúnaðar?

4. Hvaða þéttbýlisstaðir njóta ekki fullnægjandi sjónvarpsskilyrða?``