Útsendingar sjónvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:20:18 (756)

1999-10-20 14:20:18# 125. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A útsendingar sjónvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu og bera þessa fyrirspurn fram. Ég held að það sé ekki nema gott að þjóðin fái að vita að 78 heimili eru enn sjónvarpslaus á landinu. Það er lítill eða enginn áhugi fyrir því frá sjónvarpsins hendi að koma dreifingu til þessara bæja.

Ég hafði orð á því fyrir meira en 20 árum að við ættum að sjá sóma okkar í að koma sjónvarpi til allra landsmanna áður en við færum að breyta tækni sjónvarpsins og litvæða það. Þessu var snúið svoleiðis í höndunum á mér að ég var talinn á móti litasjónvarpi, sem er algjörlega fjarstæða af því ég tel mikilvægt að hafa litasjónvarp. En ég tel líka að okkur beri skylda til að sinna þeim 78 bæjum sem ekki sjá sjónvarp enn þá og það er okkur til stórskammar hvernig þetta mál er komið.