Útsendingar sjónvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:21:44 (757)

1999-10-20 14:21:44# 125. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A útsendingar sjónvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:21]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Sjónvarpið og allt Ríkisútvarpið er góð og merkileg stofnun og hefur unnið mikilvægt starf í þjóðlífi okkar. Það hefur menningarhlutverk, öryggishlutverk, afþreyingarhlutverk og sinnir því prýðilega að flestu leyti. Auðvitað eru breytingar sem hljóta að verða í tímans rás eftir því sem aðstæður og nýir tímar kalla á og ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar gengur allt of hægt að ljúka við dreifikerfið þannig að útsendingar náist alls staðar á byggðu bóli á Íslandi. Og það er einfaldlega til skammar að það skulu vera 78 heimili í landinu sem enn þá nái ekki sjónvarpinu. Allar tækniframfarir, textavarpið, hugsanlega ný sjónvarpsrás og hvað sem er, á að bíða þangað til búið er að ljúka þeim einföldu atriðum að allir landsmenn sitji við sama borð. Þangað til það gerist er Ríkisútvarpið því miður ekki útvarp allra landsmanna.