Útsendingar sjónvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:29:04 (762)

1999-10-20 14:29:04# 125. lþ. 13.4 fundur 43. mál: #A útsendingar sjónvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í tilefni af þessum umræðum og vegna þeirra athugasemda sem fram hafa komið finnst mér full ástæða til að æskja þess hjá Ríkisútvarpinu að gerð verði nánari grein fyrir því hvaða bæir þetta eru og hvað það kostar að fullnægja þeim kröfum sem menn vilja gera til Ríkisútvarpsins í þessu efni og að lagðar verði fyrir þingmenn upplýsingar sem gefa þeim vitneskju um kostnaðinn sem því fylgir að ná því markmiði sem hér hefur verið talið að eigi að ná og er í sjálfu sér eðlilegt markmið.

Einnig tel ég eðlilegt að æskja þess við Ríkisútvarpið að útskýra nánar þau 20 tilvik sem hér hafa verið gagnrýnd þannig að menn átti sig á því hvaða tilvik þetta eru og hvernig málum er háttað í einstökum tilvikum miðað við þá gagnrýni sem fram hefur komið.

[14:30]

Ég er þeirrar skoðunar að næsta skref til þess að tryggja sem víðtækasta dreifingu sjónvarps um landið allt sé að líta til gervitunglanna og hraða beri athugunum á því hvernig Ríkisútvarpið getur nýtt sér gervitunglasendingar, til þess að auka sendistyrk hér á landi og einnig á hafinu umhverfis landið og gera fleirum kleift að nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði. Það tel ég skynsamlegustu leiðina að því marki sem við viljum ná.

Einnig bendi ég á að síminn, internetið og sú þjónusta sem unnt er að nýta sér með þeim hætti hefur gerbreytt aðstöðu manna. Það er því fráleitt að segja að 78 bæir séu einangraðir frá því að geta nýtt sér þjónustu Ríkisútvarpsins, hana er hægt að nýta núna með tölvu í gegnum síma ef menn kjósa. Ég tel að það þurfi að leggja fram frekari upplýsingar og greina þetta betur þannig að menn sjái þá kostnaðarþætti sem eru í dæminu og einnig einstök atriði varðandi þriðju spurninguna og þau svör sem þar voru gefin.