Starfsemi kjarnorkuendurvinnslustöðvanna í Dounreay og Sellafield

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:31:41 (763)

1999-10-20 14:31:41# 125. lþ. 13.6 fundur 39. mál: #A starfsemi kjarnorkuendurvinnslustöðvanna í Dounreay og Sellafield# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Kjarnorkuendurvinnslustöðin í Dounreay á Katanesi nyrst í Skotlandi er í mjög lélegu ásigkomulagi. Í skýrslu heilbrigðisyfirvalda og skosku umhverfiverndarstofnunarinnar sem lögð var fram fyrir rúmu ári voru öryggis- og skipulagsmál stöðvarinnar gagnrýnd verulega og gerðar 143 tillögur til úrbóta. Rafmagnsframleiðslu í Dounreay var hætt 1994 þegar slökkt var á síðasta kjarnaofninum en endurvinnslu á kjarnorkuúrgangi var haldið áfram.

Ljóst þykir að þegar starfseminni verður hætt muni taka við margra áratuga hreinsunarstarf. Samkvæmt yfirlýsingum breskra stjórnvalda verður Dounreay-stöðinni ekki síst lokað af efnahagslegum ástæðum, þ.e. vegna þess að rekstur hennar er ekki lengur hagkvæmur. Öðru máli gegnir hins vegar um endurvinnslustöðina í Sellafield. Geislavirkur úrgangur frá mörgum löndum er tekinn til vinnslu í Sellafield, frá Japan, Þýskalandi, Kanada, Belgíu, Hollandi, Sviss, Svíþjóð og Ítalíu. Þau taka svo aftur við endurunnu eldsneyti og hágeislavirkum úrgangi sem fellur til við endurvinnsluna.

Þær vinnsluaðferðir sem beitt er í Sellafield leiða til þess að mikið magn verður til að teknesíum-99 sem er geislavirkt efni. Það er losað í sjóinn við Sellafield og berst þaðan með hafstraumum. Árið 1994 fimmtíufaldaðist losun teknesíum-99 frá Sellafield. Talið er víst að sú aukning sé orsök þess að efnið finnst nú við strendur Noregs og Svíþjóðar. Magn þess í Óslóarfirði fimmfaldaðist milli áranna 1996 og 1997 og síðar nefnda árið mældist styrkur þess við vesturströnd Noregs áttfalt meiri en fjórum árum áður. Allar líkur benda til þess að efnið berist áfram til Íslands og fari senn að mælast hér.

Það alvarlegasta við losun á teknesíum-99 er hversu óhemjulangan tíma það tekur að brotna niður í náttúrunni. Helmingunartími er hvorki meira né minna en 213 þúsund ár. Veruleg hætta er á að það safnist fyrir í skelfiski og krabbadýrum. Við Noreg finnst efnið aðallega í humri og þangi og mælingar á bannsvæðinu við Sellafield sýna að mikið magn þess hefur safnast fyrir í humri þar.

Norðurlöndin og Írland hafa verið í fararbroddi þeirra sem þrýsta á Breta að hætta losun geislavirkra efna í hafið. Allar þessar upplýsingar sem ég hef nú hér talið eru ástæða þessarar fyrirspurnar sem hér liggur fyrir til hæstv. umhvrh.