Starfsemi kjarnorkuendurvinnslustöðvanna í Dounreay og Sellafield

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:34:43 (764)

1999-10-20 14:34:43# 125. lþ. 13.6 fundur 39. mál: #A starfsemi kjarnorkuendurvinnslustöðvanna í Dounreay og Sellafield# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:34]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir beindi til mín fyrirspurn á þskj. 39. Fyrsta spurningin er svona:

,,Hefur ráðherra áreiðanlegar upplýsingar um það hversu lengi bresk stjórnvöld áforma að halda áfram rekstri kjarnorkuendurvinnslustöðvanna í Dounreay og Sellafield?``

Starfsemin í Dounreay hefur verið að dragast saman og í júní 1998 var ákveðið að taka ekki við meiri úrgangi til stöðvarinnar. Hún mun hins vegar standa við gerða samninga. Gert er ráð fyrir því að endurvinnslu þess úrgangs sem þegar er í stöðinni og frágangi hennar muni ljúka árið 2006. Einnig er hugsanlegt að úrgangurinn verði fluttur til Sellafield og stöðinni þá lokað fyrr. Íslensk stjórnvöld fylgjast með framvindu mála og því hefur verið heitið af hendi breskra stjórnvalda að haft verði samráð við Ísland áður en ákvarðanir verða teknar um hvernig unnið verði úr þeim úrgangi sem þegar er í stöðinni.

Önnur spurningin hljóðar svo:

,,Hvað hyggjast íslensk yfirvöld gera til að þrýsta á um að losun geislavirkra efna í hafið umhverfis Sellafield verði hætt?``

Því er til að svara að Ísland hefur mjög lengi haldið uppi mótmælum við losun geislavirks úrgangs í hafið. Þetta hefur m.a. leitt til þess að miklar framfarir hafa átt sér stað í rekstri endurvinnslustöðvarinnar í Sellafield og mjög dregið úr losun á sesíum. Það sem eftir stendur í dag er hins vegar losun á teknesíum-99 sem ekki hefur verið fjarlægt úr frárennsli stöðvarinnar. Að því beinist athygli okkar nú.

Bresk stjórnvöld hafa gengist undir skuldbindingar innan OSPAR-samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins til að grípa þegar til aðgerða við að draga úr losun geislavirkra efna út í umhverfið. Á ráðherrafundi OSPAR-samningsins í Sintra í Portúgal í júlí á síðasta ári var það markmið sett að árið 2020 yrði losun geislavirkra efna í umhverfi sjávar ekki merkjanlega yfir náttúrulegum bakgrunnsgildum. Íslendingar hafa unnið að því síðan að þrýsta enn frekar á Breta að hraða aðgerðum þannig að markmiðið næðist vel fyrir árið 2020. Við þá eftirfylgni höfum við verið í góðu samstarfi við Íra og Breta.

Í breska stjórnkerfinu er nú unnið að því að setja Sellafield-stöðinni losunarmörk fyrir næstu ár. Ráðuneyti mitt fylgist með því máli og hefur nýverið haft samband við breska umhverfisráðuneytið vegna þessa en niðurstaða liggur ekki fyrir enn sem komið er. Ég mun leggja mjög mikla áherslu á varnir gegn geislamengun í starfi mínu. Ég hef rætt þetta sérstaklega við Margot Wallström sem er í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og fer með umhverfismál. Ég ræddi þetta við hana í síðustu viku og hef einnig tekið málið upp við John Prescott, aðstoðarforsætisráðherra og umhverfisráðherra Breta, þegar hann kom hingað í sumar á sjómannadaginn. Þetta er sérstaklega alvarlegt mál sem ég mun leggja mikla áherslu á að ýta á eftir að verði leyst.

Þriðja spurningin var:

,,Hefur ráðherra leitað eftir upplýsingum um hvað eigendur Dounreay-stöðvarinnar hyggist gera til þess að auka öryggi hennar í samræmi við ábendingar breskra heilbrigðisyfirvalda og skosku umhverfisverndarstofnunarinnar sem fram komu á síðasta ári?``

Þessar ábendingar eru hluti af umræðunni um framtíð stöðvarinnar sem ég fjallaði um í svarinu við fyrstu spurningunni.

Í fjórða lagi er spurt:

,,Hvaða ráðstafanir hafa íslensk stjórnvöld gert til að fylgjast með magni teknesíum-99 í hafinu umhverfis Ísland á næstu árum?``

Árið 1998 var tekin ákvörðun um að hefja vöktun vegna teknesíum-99 í hafinu umhverfis Ísland. Um er að ræða samstarfsverkefni Geislavarna ríkisins og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnunar. Fyrstu niðurstaðna er að vænta núna fyrir árslok. Eitt af fyrstu verkum mínum sem umhvrh. var að kynna niðurstöður umfangsmikilla vöktunarmælinga á mengandi efnum á og við Ísland, en þar kemur fram að styrkur manngerðra geislavirkra efna hér við land er með því lægsta sem gerist í heiminum. Ég vil sérstaklega draga það fram af því að þessi umræða má ekki valda því að við höldum að hér sé mjög mikil geislamengun. Það er alls ekki en að sjálfsögðu viljum við vera með forvarnaaðgerðir. Við viljum tryggja þessa sérstöðu sem við höfum til framtíðar.

Í fimmta lagi var spurt:

,,Hefur þjóðréttarleg staða Íslendinga verið könnuð með tilliti til þess tjóns sem mengun af völdum teknesíum-99 gæti valdið íslenskum sjávarútvegi?``

Svarið við fimmtu spurningunni er að íslensk stjórnvöld hafa lagt megináherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir vegna þeirra gífurlegu hagsmuna sem hér eru fyrir þjóðarbúið. Við vinnum að því að koma í veg fyrir skaðann fyrir íslenskan sjávarútveg og þar með þjóðarbúið allt með það að markmiði að spurningin um skaðabætur komi aldrei upp.

Virðulegi forseti. Ég á eftir að svara tveimur spurningum.

Sjötta spurningin hljóðar svo:

,,Hafa íslensk stjórnvöld undir höndum upplýsingar um siglingaleiðir þeirra skipa sem flytja geislavirkan úrgang til og frá Sellafield?``

Stjórnvöld hafa ekki upplýsingar um þessar siglingaleiðir undir höndum enda hafa flutningsaðilar haldið slíku leyndu eftir því sem kostur er með þeim rökum að slíkt dragi úr hættu að hryðjuverkum. Þó er vitað að siglingaleiðir með þessi efni frá Japan koma ekki nærri íslensku farvatni.

Sjöunda og síðasta spurningin var:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir því á vettvangi norrænnar samvinnu að Svíar hætti að senda kjarnorkuúrgang til endurvinnslu í Sellafield?``

Þá er því til að svara að endurvinnsla á kjarnorkuúrgangi í Sellafield verður á dagskrá umhverfisráðherrafunda Norðurlandanna í Stokkhólmi um miðjan nóvember. Það er ágætt að það komi fram að ég óskaði sérstaklega eftir því á fundi okkar við Mývatn að þetta yrði tekið fyrir í Stokkhólmi. En umhverfisráðherrar Norðurlandanna hafa áður látið þessi mál til sín taka og komið sameiginlegum mótmælum til Breta um losnun á teknesíum. Svíar hafa sent takmarkað magn af úrgangi til Sellafield. Það hefur frést af fyrirætlunum þeirra um að senda eldsneyti úr rannsóknakjarnakljúf, sem lokað var 1970, til Sellafield en það mál verður meðal þess sem við munum að sjálfsögðu ræða í Stokkhólmi.