Starfsemi kjarnorkuendurvinnslustöðvanna í Dounreay og Sellafield

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:40:41 (765)

1999-10-20 14:40:41# 125. lþ. 13.6 fundur 39. mál: #A starfsemi kjarnorkuendurvinnslustöðvanna í Dounreay og Sellafield# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég átti fund ásamt tveimur öðrum hv. þm. með Michael Meacher, umhverfisráðherra Breta, á ráðstefnu sem var haldin í Árósum í Danmörku. Þar ræddum við þetta alvarlega mál, þ.e. losun á teknesíum-99 í hafið frá Sellafield. Við gerðum honum grein fyrir því hversu alvarlegt þetta væri í augum Íslendinga. Hann hafði í sjálfu sér heyrt þær athugasemdir áður en lofaði þá að það yrði tekið sérstaklega upp í viðræðum sem áttu að vera nokkrum vikum seinna meðal umhverfisráðherra Evrópu um losun þessara efna í hafið ásamt fleiru.

Þá var lofað að gripið yrði til róttækra aðgerða en eftir að hafa séð þær ákvarðanir sem höfðu verið teknar get ég ekki sagt að þær hafi verið í þeim anda sem sá ráðherra hafði lýst yfir.

Ég verð að segja að það er mjög mikið áhyggjuefni fyrir okkur að svona hægt skuli ganga og ég skora á hæstv. umhvrh. að taka á stóra sínum í þessu máli því að þar veitir ekki af.