Gerð vega og vegslóða í óbyggðum

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:52:03 (770)

1999-10-20 14:52:03# 125. lþ. 13.7 fundur 53. mál: #A gerð vega og vegslóða í óbyggðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., JónK
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:52]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Hér er um þarft mál að ræða. Full þörf er á að huga að vegalagningu á hálendinu og fara þar með gát.

Ég vil sérstaklega undirstrika að mikil nauðsyn er á að kortleggja aðalleiðir á hálendinu, kortleggja hvað eru aðalleiðir og merkja þær vegna þess að ekkert heldur umferðinni eins mikið í skefjum og merktar aðalleiðir. Keyrsla utan vegar á hálendinu er mikil náttúruspjöll. Það vita allir sem hafa komið þar og því miður er allt of mikið af slóðum. Nefni ég þá bara svæðið norðan Vatnajökuls sem er frægt svæði og þarf ekki að lýsa því nánar. Ég vil eingöngu taka undir efni þessarar fyrirspurnar og undirstrika þörfina á því að vinna áfram að þessum málum.