Gerð vega og vegslóða í óbyggðum

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:55:48 (772)

1999-10-20 14:55:48# 125. lþ. 13.7 fundur 53. mál: #A gerð vega og vegslóða í óbyggðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:55]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með fyrirspyrjanda. Við þurfum að taka á þessu máli. Það hefur verið mjög mikið álag á vegakerfinu fyrir norðaustan Vatnajökul í sumar. Mér skilst að það hafi fleiri komið á það svæði í sumar heldur en frá landnámi. Að sjálfsögðu er það mikið álag. Það særði mig líka að sjá hvernig fólk hefur leyft sér að keyra þarna beggja vegna steina o.s.frv. í staðinn fyrir að halda sig á veginum þannig að þetta er mjög stórt verkefni.

Ef mig brestur ekki minni þá eru ferðamenn til Íslands nú um það bil 250 þús., þ.e. álíka margir og búa í landinu, aðeins færri. Það er ágætt að rifja það upp að til Spánar koma á hverju ári jafnmargir og íbúarnir þar eru þannig að við erum kannski núna orðin ferðamannaland eins og Spánn. Samkvæmt spám skilst mér að eftir tíu ár muni koma hingað um 500 þús. manns sem ferðamenn og það er alveg ljóst að það verður skipulagt kaos á hálendinu ef ekki verður tekið skipulega á þessum málum.

Árni Bragason, forstjóri Náttúruverndar ríkisins, hefur skoðað þetta sérstaklega í haust og það er alveg ljóst að það verður, að hans mati og fleiri --- hann hefur einnig rætt þetta við Vegagerðina og Ferðamálaráð að mér skilst --- að kortleggja þessa vegi svo að til sé gott skipulag af vegslóðum og vegum á hálendinu þannig að menn geti ekki fríað sig ábyrgð með því að keyra eins og þeim þóknast eftir einhverjum vegum sem varla sjást. Það er mjög brýnt að taka á þessu. Þetta er stórt verkefni og það mun taka langan tíma að ljúka því. En það verður að fara í það svo ekki skapist neyðarástand á hálendinu vegna mjög aukins umferðarþunga.