Miðstöð sjúkraflugs á Akureyri

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:54:26 (794)

1999-10-20 15:54:26# 125. lþ. 13.9 fundur 92. mál: #A miðstöð sjúkraflugs á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:54]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin og þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra veitti um stöðu málsins. Ég sætti mig prýðilega við þau svör sem gefin voru í ljósi þess að tillögur og umsagnir um skýrslu eru til skoðunar í ráðuneytinu. Ég fagna því að hæstv. ráðherra telur þetta álitlegan og áhugaverðan kost sem vel komi til greina.

Enginn vafi er á því og það er hárrétt sem hæstv. ráðherra sagði að liður í því að styrkja heilbrigðisþjónustuna almennt á landsbyggðinni er að sjálfsögðu að gera vel við þær sérhæfðu og stóru stofnanir sem þjóna þar hlutverki eins og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og reyndar fleiri stofnanir, Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði eða í Neskaupstað þess vegna, svo eitthvað sé talið.

Ég heiti hæstv. ráðherra stuðningi mínum, ef hann má til einhvers duga, til að reyna að hrinda málinu í framkvæmd. Það er alveg ljóst að það mun kosta nokkra fjármuni, sérstaklega stofnkostnað, að koma upp vandaðri og öflugri sjúkraflugvél en það er líka til mikils að vinna. Ég held að menn verði að átta sig á því að þessu hefur verið sinnt við alveg afar ófullkomnar aðstæður hingað til. Ég geri ráð fyrir því að þingmenn þekki Piper Chieftain vélar, níu sæta vélar, þröngar og erfiðar sem mikið hefur verið notast við í þessu flugi og er náttúrlega órafjarri því að uppfylla þær kröfur sem við ættum að gera til sjúkraflutninga og sjúkraflugs, oft við erfiðar aðstæður. Hér þarf langdræga og mátulega hraðskreiða flugvél með jafnþrýstiklefa sem getur flogið yfir veður, getur flogið til nágrannalandanna og er búin á allan besta fáanlegan máta hvað það varðar að flytja sjúkt fólk og geta nýst í neyðartilvikum. Það er það sem á vantar til viðbótar þyrlunni, sem hér er á suðvesturhorninu, til að koma þessum hlutum í gott horf fyrir landið allt. Það er til geysilega mikils að vinna og ég vona að sá draumur heilbrigðisstéttanna geti ræst, og okkar allra auðvitað, að eignast slíkt tæki fyrr en síðar.