Afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 10:32:29 (799)

1999-10-21 10:32:29# 125. lþ. 15.91 fundur 90#B afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[10:32]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að í nótt og í morgun hefur það gerst að Náttúruverndarsamtök Íslands hafa kært íslensk stjórnvöld til Eftirlitsstofnunar EFTA fyrir að brjóta gegn tilskipun ráðsins um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið.

Um er að ræða afskaplega alvarlegt mál sem ég tel ástæðu til að vekja athygli á hér vegna þess að að baki liggur mjög viðamikið lögfræðiálit sem gefur okkur vísbendingu um að virkjanaleyfi Landsvirkjunar sem hæstv. iðnrh. gaf út 24. apríl 1991 sé fallið niður af ýmsum orsökum, að virkjanaleyfi Landsvirkjunar sé ekki endanlegt leyfi af ýmsum orsökum, að bráðabirgðaákvæði II, þetta margumrædda undanþáguákvæði sem er í lögunum um mat á umhverfisáhrifum, sé fallið niður af ýmsum ástæðum og sömuleiðis að fullyrðing stjórnvalda um að sérlög nr. 42/1983, um að Landsvirkjun veiti þeim heimild til að undanfæra Fljótsdalsvirkjun frá mati á umhverfisáhrifum, standist ekki lög þar sem engin kynning á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar hafi farið fram þegar lögin voru samþykkt á Alþingi. Og í síðasta lagi er talað um að sú ákvörðun stjórnvalda að láta ekki meta umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar á lögformlegan hátt sé andstæð EES-rétti.

Þetta allt saman tel ég vera ástæðu til þess að hv. Alþingi flýti svo sem kostur er afgreiðslu þáltill. sem liggur fyrir um að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum.