Afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 10:34:31 (800)

1999-10-21 10:34:31# 125. lþ. 15.91 fundur 90#B afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[10:34]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér finnst full ástæða til þess að þingmaðurinn Kolbrún Halldórsdóttir kveðji sér hljóðs um störf þingsins til að greina frá þessum atburðum sem við fengum fréttir af í morgun í fréttatímanum, ekki síst vegna þess að hér er á ferðinni mál sem þingið mun taka fyrir á næstunni, mál sem miklar deilur eru um. Þegar stórir atburðir verða úti í þjóðfélaginu sem varða þau málefni sem við erum sjálf að fást við hér inni er ekki óeðlilegt að á þeim sé vakin athygli héðan úr þessum ræðustól. Af þeim sökum báðum við um utandagskrárumræðu í gær um stórt mál sem upp kom í fréttaflutningi og full ástæða þótti til að Alþingi tæki til umfjöllunar. Hér er ekki verið að taka umræðu um þetta mál heldur vekja athygli á því að einn angi þess máls sem verður tekinn til afgreiðslu á þinginu, væntanlega í nóvember, hefur verið kærður til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Virðulegi forseti. Full ástæða er til þess að við sýnum varfærni og fáguð vinnubrögð í öllu sem við gerum. Ég hef ekki skoðað neitt af efnisatriðum þessa máls sem sent var til EFTA og ætla ekki að tjá mig um það, en vil taka undir það hér að full ástæða er til að vekja athygli á því þegar gripið er til svo, hvað eigum við að segja, harðra aðgerða líkt og gert er nú í þessu viðkvæma máli.