Afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 10:43:51 (805)

1999-10-21 10:43:51# 125. lþ. 15.91 fundur 90#B afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), VS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[10:43]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þoli ákaflega vel efnislega umræðu (SJS: Það er gott.) en ég hef tekið eftir því í gegnum árin að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þolir ekki mikla gagnrýni. En það er nú eins og það er.

Ég segi að mér finnst það ekkert óskaplega mikil tíðindi þó að Náttúruverndarsamtök Íslands hafi kært til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna þess að þau samtök, ásamt ýmsum öðrum og ýmsum hv. þm., reyna að beita öllum hugsanlegum ráðum til að koma í veg fyrir þessar framkvæmdir. Þetta er augljóst. Það hefði því komið mér meira á óvart ef þetta hefði ekki verið gert. En það að þetta skuli vera rætt á hv. Alþingi í upphafi þingfundar er vegna máls sem er til meðferðar í hv. umhvn. þingsins og fær þar að sjálfsögðu efnislega umfjöllun. Það er hins vegar ekkert launungarmál að annað mál kemur fyrir þingið áður en langt um líður frá hæstv. iðnrh. um það að þingið staðfesti þær ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar, fyrir mörgum árum og reyndar þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sat í ríkisstjórn, að virkjunarframkvæmdir í Fljótsdal skyldu heimilaðar. Hugmynd hæstv. iðnrh. er að leggja málið fram til þess að fá staðfestingu þingsins einu sinni enn á því að þetta skuli gert. Eins og allir vita fer þessi framkvæmd ekki í umhverfismat samkvæmt lögum frá 1993 vegna þess að framkvæmdir voru þegar hafnar. Það fer hins vegar í umhverfismat samkvæmt lögum sem þá giltu.