Afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 10:47:48 (807)

1999-10-21 10:47:48# 125. lþ. 15.91 fundur 90#B afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[10:47]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hafna því að hér sé ég að nota þennan stól sem fréttastofu, eins og hv. þm. Jón Kristjánsson sagði áðan. Ég bendi á að hér er afskaplega alvarleg kæra á ferðinni, efnislega vel undirbyggð með mjög margþætt lögfræðilegt álit á bak við sig. Við höfum verið að deila um lagalega og lagatæknilega hluti þessa máls hingað til og við höfum, eins og komið hefur fram í þessum stuttu umræðum, fengið að heyra það að hér séu væntanleg inn mál frá hæstv. ráðherrum sem eigi að afgreiða í þinginu en ekki á þann hátt sem leikreglur samfélagsins og leikreglur sem hér hafa verið samþykktar segja til um, þ.e. að við eigum að taka til umfjöllunar innan skamms stóra frummatsskýrslu Landsvirkjunar um málið en hún á ekki að fara í sinn lögformlega farveg til Skipulagsstofnunar ríkisins. Það eru þessir hlutir sem Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýna. Náttúruverndarsamtök Íslands eru ekki með upphlaup eða uppákomu, eins og hv. þm. Jón Kristjánsson kallaði það hér áðan, að tilefnislausu því samkvæmt Evrópurétti er réttur einstaklinga til að koma á framfæri athugasemdum áður en framkvæmdir hefjast grundvallarréttur sem stjórnvöldum ber að virða í hvívetna. Það er það sem er alvarlegt við málið, þ.e. að þetta skuli ekki eiga að gera og þess vegna er vakin athygli á þessari kæru hér.