Afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 10:49:31 (808)

1999-10-21 10:49:31# 125. lþ. 15.91 fundur 90#B afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[10:49]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að koma aftur í ræðustól undir þessum efnislið. Ekki tók ég upp efnislega umræðu í hið fyrra sinn og mun ekki heldur gera það í hið síðara.

En mér líkar ekki það sem er að gerast á Alþingi Íslendinga. Hægt og sígandi er eiginlega verið að koma því á framfæri við stjórnarandstöðuna að hún eigi ekki að vera með vesen og umræður. Hún á ekki að vera með neitt lýðræðishjal. Hún á bara að gegna því og lúta að hér er mjög stór meiri hluti á Alþingi Íslendinga, meiri hluti sem ræður hvaða mál eru afgreidd, meiri hluti sem helst vill ráða því hvað hér er tekið til umræðu. Og svo eigum við bara að vera þæg og helst halda okkur saman.

Mér líkar ekki þessi þróun, herra forseti, og þess vegna kem ég aftur í þennan ræðustól.

Þingsköpin kveða á um mikinn rétt þingmanna til umræðu. Ein leið sem þingmaður getur valið, eða þingflokkur, er löng utandagskrárumræða. Við höfum fyrir löngu gert okkur grein fyrir því, herra forseti, að það eru ekki heppilegar umræður á Alþingi Íslendinga í dag. Við höfum þess vegna fallið frá því að nýta þann rétt þingskapanna. Annað slagið biðjum við um stutta hálftíma umræðu og ég tek það sérstaklega fram að fyrrv. forseti, Ólafur G. Einarsson, var mjög lipur varðandi þær og hvatti til að slíkar hálftíma umræður væru notaðar því það væri gott fyrir Alþingi að hér færi fram snörp umræða um það sem ofarlega er á baugi hverju sinni. En líka núna heyrum við úr ýmsum áttum stjórnarliðsins að það eigi að fara að dempa niður þennan möguleika á hálftímaumræðunum.

Hér kemur þingmaður upp um störf þingsins, ekki til að taka efnislega umræðu heldur til að koma með ábendingu um mál sem hvílir á þingmanninum og honum finnst mikilvægt að sé tekið upp hér. Hvað gerist þá? Í stað þess að prúðmannlega sé tekið við þessari prúðmannlegu ræðu þingmannsins, þá heyrast atyrðingar hér. Ég held að stjórnarmeirihlutinn eigi að fara að hugsa sinn gang. Þetta snýst ekki um yfirráð stjórnarmeirihlutans við (Forseti hringir.) stjórnarandstöðuna. Því fer fjarri.