Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:15:18 (816)

1999-10-21 11:15:18# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, LB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:15]

Lúðvík Bergvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því sérstaklega að hæstv. viðskrh. skuli láta svo lítið að mæta í salinn þrátt fyrir að sumir hafi lýst því yfir að hans hafi ekki verið eins sárt saknað og aðrir vildu vera láta.

Ég vil taka undir það að vitaskuld á hæstv. forsrh. að vera hér líka. Hann hefur farið mikinn í sumar, lýst því yfir hverjir hafi staðið sig vel á markaði og hverjir ekki. Hverjir eru óæskilegir inn í einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar og hverjir ekki o.s.frv. Vitaskuld á hæstv. forsrh. að taka þátt í þessari umræðu.

Virðulegi forseti. Forseti tók þá ákvörðun í upphafi umræðunnar þegar beðið var um að þessari umræðu yrði frestað að leyfa einum hv. þm. á mælendaskrá að taka til máls. Þrátt fyrir að hv. þm. Pétur Blöndal sé jafnan hér í salnum er þessi þingfundur farinn að minna mig á þingflokksfund hjá Samfylkingunni plús eða mínus einn eða tvo. Þér að segja, virðulegi forseti, höfum farið í þessa umræðu innan þingflokksins og því engin ástæða til að halda henni áfram hér, virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég var dálítið ósáttur við þá ákvörðun sem forseti tók þegar hann vildi halda umræðunni áfram þrátt fyrir að hér væri vart aðra að finna en þingflokk Samfylkingarinnar og nokkra þingmenn til viðbótar.