Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:16:48 (817)

1999-10-21 11:16:48# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, HjÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:16]

Hjálmar Árnason (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér fer fram nokkuð merkileg umræða. Ég hjó eftir því að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson taldi upp nefndarmenn í hv. efh.- og viðskn. og greindi aðallega frá þeim sem ekki voru hér viðstaddir. Mér þykir það í rauninni afskaplega ómerkileg upptalning og ómerkileg framkoma af hálfu hv. þm. Hann hefur augljóslega ekki fylgst með því sem gerst hefur í þinginu á síðustu árum, var þó í hv. forsn. á síðasta kjörtímabili (Gripið fram í: Og er enn.) og er enn. Hafi það farið fram hjá hv. þm. þá var tekin upp sú nýbreytni á síðasta kjörtímabili að innleiða svokölluð sjónvörp inn á vinnuherbergi þingmanna. Það hygg ég að hv. þm. viti og geri sér grein fyrir að þingmenn sitja gjarnan og fylgjast með umræðum. Ég hygg jafnvel að eigi við hv. þm.: ,,Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steininum.`` Ég veit ekki til þess að þessi hv. þm. hafi setið hér alla þingfundi og það hefur í sumum tilvikum sínar eðlilegu skýringar. Með virðingu Alþingis í huga frábið ég mér slíkan málflutning og slíkt upphlaup sem hv. þm. gerir sig sekan um.