Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:39:54 (829)

1999-10-21 11:39:54# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, GÁS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:39]

Guðmundur Árni Stefánsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Ástu Möller þá benti hún mér á að ég hefði ekki farið rétt með áðan þegar ég gat þess að tveir hv. þm. sem sæti eiga í efh.- og viðskn. hefðu ekki haft fjarvistarleyfi. Ég vil fara að siðareglum og viðurkenna að mér missást yfir að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem bæði eiga sæti í efh.- og viðskn., hafa fjarvistarleyfi í dag. Rétt skal vera rétt og ég skal gangast við mistökum mínum alveg fyrir fullt og fast.

En það breytir ekki hinu að núna eru þrír hv. þingmenn stjórnarliða af 38 sem sæti eiga á Alþingi viðstaddir umræðuna og það breytir því ekki að hv. þm. Hjálmar Árnason sem skaust hér inn --- fyrirgefið, þeir eru fjórir. Ég vil geta þess sérstaklega að hv. þm. Gunnar Birgisson, sem sæti á í nefndinni, er kominn til fundarins. --- En hv. þm. Hjálmar Árnason kom hingað í blóðspreng til að eiga einhver orð um fundarstjórn forseta og bera af sér einhverjar meintar sakir, þær helstar að hann sæti úti á kontór og fylgdist með þessu í sjónvarpinu. Það er gott og blessað en vildi ég eiga við hann orðastað þá dugir mér það ákaflega skammt að hafa hann sitjandi við sjónvarp sitt og er hann nú farinn til þeirrar gerðar.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, virðulegi forseti. Ég held að öllum meginatriðum þessa máls sé til haga haldið. Það er augljóst að hv. stjórnarliðar sinna ekki þingskyldu sinni. Þeir hafa lítinn áhuga á umræðunni sem þeir þó hafa haldið mjög á lofti að eigin frumkvæði í allt sumar og það segir auðvitað meira en mörg orð um það hvernig þeir virða þingstörfin þegar menn eru með löggjafarstarfi að reyna að taka á þeim álitamálum sem uppi hafa verið í umræðum um þessi mál. Það er kjarni málsins.