Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 12:02:18 (838)

1999-10-21 12:02:18# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, RG
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[12:02]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Bryndís Hlöðversdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur gert mjög vel grein fyrir ástæðum þess að við í þingflokki Samfylkingarinnar teljum mjög brýnt að setja siðareglur í viðskiptum á fjármálamarkaði. Sú tillaga sem er til umræðu er hluti af málafernu sem við höfum lagt fyrir þingið. Í fyrsta lagi það mál sem við erum hér að ræða, í öðru lagi breytingar á samkeppnislögum og í þriðja lagi eftirlit með fjármálastarfsemi auk breytinga á lögum um kauphallir, sem er reyndar ekki á dagskrá þingsins í dag. Við munum ræða þrjú þessara mála í dag og þau eiga það öll sameiginlegt að reyna að gera fjármálamarkað okkar gegnsærri og skýrari og skapa umgjörð fyrir það fólk sem setur fjármagn sitt inn á þennan markað eða á einhvern annan hátt á í viðskiptum á fjármálamarkaði.

Auk þessara mála sem við höfum hér sett fram þá höfum við beðið um skýrslu um eigna- og stjórnunartengsl í íslensku atvinnulífi. Slík skýrsla var reyndar unnin og kynnt árið 1994 af þáv. viðskrh. og núv. þingmanni Samfylkingarinnar, Sighvati Björgvinssyni. Sú skýrsla vakti mikla athygli árið 1994 vegna þess að hún leiddi í ljós hve eigna- og stjórnunartengsl voru mikil í okkar litla þjóðfélagi. Ný skýrsla mun væntanlega leiða mikla samþjöppun í ljós á peningamarkaði og það er alveg óumdeilt að þörf er fyrir siðareglur á fjármagnsmarkaði.

Mér finnst það reyndar vera að deila um keisarans skegg þegar menn segja í öðru orðinu að þeir vilji siðareglur en það má bara alls ekki fela ráðherra að láta fyrirtæki setja sér þær. Það er eiginlega jafnfráleit umræða eins og ef samtök heilbrigðisstétta mundu koma sér saman um það að hver einstök stétt setti sér siðareglur að þá mundi einhver ein stéttin alls ekki vilja það af því að hugmyndin kom ofan frá.

Þetta er enn öðruvísi vaxið vegna þess hversu mikilvægt það er að viðskiptasiðferði sé öflugt. Ekki hefur verið mikil umræða um viðskiptasiðferði hjá okkur og það er ástæða til að hafa þessa umræðu. Af hverju við höfum ekki rætt viðskiptasiðferði? Ég held að það sé vegna þess að verðbréfamarkaðurinn er mjög ungur, hann er í mótun, en það eru miklu fleiri á markaði en fólk gerir sér grein fyrir. Við erum oftast að tala um stóru aðilana með stóru fjárhæðirnar sem eru með bréfum að skiptast á eignum í stóru fyrirtækjunum en mjög margir smærri aðilar eru á fjármagnsmarkaði. Fólk velur það í dag að vera annaðhvort með fjárfestingu í einhverjum verðbréfum eða ef það er að koma sér upp sparifé eða að nota bankasparnað. Við eigum auðvitað að gera þessa hluti þannig að öll viðskipti séu snurðulaus og að viðmið séu skýr um siðleg athæfi, eins og kemur fram í greinargerðinni.

Mikil umræða hefur verið um það hvort eigi að setja þessar reglur. Bryndís Hlöðversdóttir vakti athygli á því að öll Evrópubandalagslöndin hafa sett siðareglur um viðskipti með framseljanleg verðbréf og það er nákvæmlega það sem við erum að tala um að eigi að gera hér. Það er dálítið undarlegt ef við erum svona þróuð, þessi litla þjóð sem er með alveg splunkunýjan fjármagnsmarkað að við erum yfir það hafin að setja siðareglur. Ef umræðan í þessum sal á að snúast um að ekki megi tala um það á Alþingi Íslendinga eða að ráðaherra hlutist til um það af því annaðhvort eigi siðareglurnar að vera sjálfsprottnar eða þær eigi alls ekki að vera settar.

Sömuleiðis kemur fram í þessari greinargerð, sem ég hvet alla hlutaðeigandi til þess að skoða, að í umfjöllun um framkvæmd siðareglna Evrópubandalagsins segir að óhjákvæmilegt sé að hvert aðildarríki hafi a.m.k. einn aðila, eftirlitsstofnun, fagsamtök eða annað á grunnvelli þess fyrirkomulags sem er þegar við lýði, sem beri ábyrgð á að fylgjast með framkvæmd siðareglnanna á landsvísu.

Af hverju skyldu þessi samtök evrópskra landa hafa sett sér þessi viðmið? Það er vegna þess að þau gera sér grein fyrir því að það verður að gæta hags fólksins í löndunum.

Vissulega hefur það líka gerst hjá okkur. Ég ætla líka að nefna það að Alþjóðasamband kauphalla hefur sett sér meginreglur um viðskiptahætti og má ætla að þeir sem eru aðilar að sambandinu undirgangist þær meginreglur þó að þeir hafi e.t.v. ekki enn þá sett sér siðareglur sjálfir. En ég ætla einnig að nefna að aðilar í samfélagi okkar hafa gert sér grein fyrir þessu og ákveðið sjálfir að setja sér siðareglur og dæmi um það er Verðbréfaþing Íslands. Þeir hafa sett sér siðareglur og þeim reglum er ætlað að stuðla að sýnileika, réttri verðmyndun, jafnræði í viðskiptum með skráð verðbréf og að vinna verðbréfamarkaði tiltrú og traust og stuðla að framþróun hans. Reglurnar fjalla um heiðarleika og sanngirni, um bestu framkvæmd, um upplýsingar, um hagsmunaárekstra og misnotkun aðstöðu, um viðskiptahætti og sýnileika, um hæfni, um þagnarskyldu og opinbera umfjöllun og um löghlýðni og eftirlit.

Af hverju skyldi fyrirtæki eins og Verðbréfaþing Íslands setja sér slíkar reglur? Af því að það fólk sem þarna er gerir sér grein fyrir hversu markaðurinn er viðkvæmur og hversu mikilvægt það er að í öllum störfum markaðarins sé gætt heiðarleika og sanngirni.

Hvað eru menn að tala um mundi þá einhver spyrja? Hægt er að nefna t.d. ákvæði eins og að þingaðila er óheimilt að setja fram tilboð sem hann getur ekki staðið við eða tilboð sem hefur þann tilgang að setja fram skoðun á öðru en verði, það er eitt dæmi. Að starfsfólk þingaðila skal upplýsa viðskiptamann um það ef viðskipti hafa verið stöðvuð með hlutabréf viðkomandi félags í viðskipta- og upplýsingakerfi þingsins þrátt fyrir að þingaðilinn sé t.d. að eiga viðskipti við viðskiptamanninn fyrir eigin reikning, þ.e. utanþingsviðskipti.

Það má líka nefna ákvæði um að starfsmanni þingaðila er óheimilt að taka kaup- eða sölutilboði sem gefur augljóslega ranga mynd af markaðsverði tiltekins hlutabréfs og starfsmanninum má ljóst vera að allar líkur eru á að uppgjör viðskiptamanna fari ekki fram.

Við skulum bara spyrja okkur sjálf hvort alls þessa sé gætt í viðskiptum á verðbréfamarkaði hjá öðrum aðilum og spyrja okkur þeirrar heiðarlegu spurningar hvort ekki sé einmitt þörf á því að taka á þessum málum og að hér séu settar öflugar reglur. Ég undirstrika það sem kemur fram í máli félaga minna að verið er að fela viðskrh. að sjá um að allar stofnanir og fyrirtæki á fjármálamarkaðnum setji sér sérstakar siðareglur í viðskiptum og tilvísun til annarra og þeirra sambanda og þjóðarsambanda sem hafa sett sér slíkar reglur.

Það er mikill munur, herra forseti, á þessu eða að fela ráðherranum að setja sérstakar siðareglur. Að slíkri tillögu hefði ég aldrei staðið.