Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 12:24:47 (844)

1999-10-21 12:24:47# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, KolH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[12:24]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er afskaplega athyglisverð umræða á ferðinni um siðferði í viðskiptum. Ég verð að viðurkenna að ég hef haft afskaplega gaman af að sitja og hlusta á það sem hér hefur farið fram. Ég hafði gaman af hugleiðingu hv. 10. þm. Reykv., Péturs Blöndals, sérstaklega þeim hluta ræðunnar sem fjallaði um traust og heiðarleika. Ég verð að segja að það er gott að taka þátt í umræðu á hinu háa Alþingi sem fjallar um þessi hugtök: heiðarleika, sanngirni, kostgæfni, hæfni og löghlýðni. Þetta eru eiginleikar sem skipta okkur öll miklu máli. Þetta eru eiginleikar sem við sjálf óskum að við séum gædd og getum í heiðri haft í lífinu. Þetta eru eiginleikar sem við viljum að mæti okkur í lífinu og ekki hvað síst í viðskiptum okkar við fjármálastofnanir.

Um svona mál á eðli málsins samkvæmt að geta náðst víðtæk og breið sátt. Mér heyrist það á máli hv. þm. sem hér hafa talað að sú sé raunin. Hvort orðalag þáltill. er svona eða hinsegin er kannski eitthvað sem mögulega væri hægt að bæta úr.

Mig langar til að fara örfáum orðum um þessa þætti sem hér eru til umræðu, t.d. ímynd fyrirtækja sem hv. þm. Pétur Blöndal orðaði svo skemmtilega að ætti kannski bara að færa til eignar í bókhaldi þeirra. Þar er ég hjartanlega sammála þingmanninum. Þetta eru verðmæti sem í eðli sínu ættu að vera mælanleg. Ég kem til með að hafa gaman af að halda þessari hugmynd á lofti og ég á eflaust eftir að minna hv. þm. Pétur Blöndal á þessi ummæli hans oftar en einu sinni, sérstaklega þegar við förum að ræða um verðmæti náttúrunnar og verðgildi hennar og hvort ekki sé þá líka hægt að mæla þau þannig að færa megi þau til bókar.

Hv. 10. þm. Reykv., Pétur Blöndal, treystir bankanum sínum og vill geta treyst honum. Það vil ég líka geta gert en ég verð að segja, að ég hef oft haft ástæðu til að treysta honum ekki. Nú um þessar mundir á ég í erfiðleikum með viðskiptastofnun mína, minn prívatbanka. Bankinn minn hefur tekið það upp hjá sjálfum sér að hafa forgöngu um að stofna fjárfestingarfélag sem er ætlað að fjárfesta í risaálbræðslu austur á Reyðarfirði. Ég hugsa: Hvað á ég að gera? Ég vil ekki vera með peningana mína í fyrirtæki sem hefur forgöngu um að risaálbræðsla sé sett upp á Reyðarfirði. Menn sem fara þannig með mitt fjármagn eru ekki þeir sem ég vil að geymi það. Ég treysti þeim ekki lengur og fer að hugleiða hvort ég geti ekki tekið peningana mína út úr þessum banka og farið með þá í einhvern annan. Nei, því miður, það get ég ekki vegna þess að allir bankarnir sem starfa á þessu svæði eru viðriðnir umræður sem nú fara fram um risaálbræðslu á Reyðarfirði. (Gripið fram í: En sparisjóðir úti á landsbyggðinni?) Sparisjóðirnir eiga því miður í eignarhaldsfélagi Alþýðubankans.

Hv. þingmenn. Ég er í standandi vandræðum vegna þess að ég treysti ekki viðskiptastofnunum þessa lands. Þessi litla saga sýnir og sannar að við höfum mikla þörf fyrir þessa umræðu. Við höfum mikla þörf fyrir að siðferði í viðskiptum sé rætt, ekki síst með tilliti til hagsmuna viðskiptavinarins og kannski er það þar sem ég vantreysti viðskiptafyrirtækjunum og fjármálastofnununum. Ég treysti þeim ekki fyrir hagsmunum viðskiptavinarins vegna þess að ég hef reynt þær að öðru. Ég hef reynt þessar stofnanir að því að hagsmunir þeirra sjálfra séu ætíð í fyrirrúmi. Það er kannski þetta sem við verðum breyta og við stjórnmálamenn á hinu háa Alþingi hljótum að geta með þessari umræðu, snúið ímyndasköpuninni við og sýnt þessum stóru viðskiptastofnunum fram á hvað er í húfi fyrir þær. Það kann að enda svo að við öll, venjulegir Íslendingar, segjum okkur úr viðskiptum við innlendar bankastofnanir vegna þess að siðferði þeirra sé okkur ekki að skapi og ekki sæmandi þeim stofnunum sem í hlut eiga.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði hér áðan að þeir sem oftast segðu: Ég segi satt --- væru oft að segja ósatt. Ég er hjartanlega sammála honum. Ég er hjartanlega sammála því, t.d. á þeirri forsendu að ég horfi á fólk sem er auðmjúkt í eðli sínu. Ég finn og skynja að auðmjúk manneskja skilur ekki einu sinni hugtakið auðmýkt. En mér finnst hætta á ferðum þegar stór stofnun sem í krafti valds og peninga getur komið fram og sagt: Ég er heiðarleg, ég er heiðarleg, ég segi satt, ég segi satt. Í ljósi orða hv. þm. Péturs Blöndals mundi ég rengja þá stofnun sem ber sér á brjóst eins og ég rengi þá manneskju sem talar af miklum fjálgleik um að hún sé auðmjúk. Ég trúi ekki slíku tali því að auðmjúk manneskja sem er sannarlega auðmjúk í hjarta sínu skilur ekki hugtakið og notar það ekki. Þess vegna vil ég meina að ég eigi erfitt með að treysta því að viðskiptastofnun uppgötvi að heiðarleikinn borgi sig.

Ég hef reynt viðskiptastofnanir og stjórnmálamenn líka að óheiðarleika og því að fara illa með þegnana og viðskiptavini sína. Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi hér til verðbólgutímann ógurlega, þegar menn settu inn í bankann sinn andvirði skíða og tóku út andvirði skíðahanska. Ég upplifði þessa tíma líka. Ég tapaði fé fyrir tilstilli stjórnmálamanna og óheiðarlegra bankastofnana. Ég er brennt barn. Þess vegna styð ég að umræðan um siðferði í viðskiptum verði efld. Þess vegna fagna ég því að þessi þáltill. skuli koma fram og nefni til sögu siðareglur blaðamanna.

Blaðamenn hafa mjög öflugar siðareglur sem oft er beitt og mætti sannarlega beita oftar, ekki væri vanþörf á. En ég minni á að skúrkar í þessu samfélagi hafa komist upp með ótrúlega hluti aftur og aftur. Ég á alltaf í vandræðum með það hvernig ég geti varið mig. Hverjum á ég að trúa? Hvað er satt og hvað er logið? ,,Hvernig getum við komið siðareglum á innan frá,`` spyr hv. þm. Pétur Blöndal. Það þarf auðvitað að eiga sér stað. Mér dettur í hug að einhvers konar vottunarstofa hins opinbera sé af hinu góða. Kannski fjallar þessi tillaga um það öðru fremur, að hæstv. viðskrh. sé gert að setja upp einhvers konar vottunarstofu, gefa þeim fyrirtækjum sem setja sér þessi innri siðferðilegu markmið einhvers konar stimpil á að þau séu þess virði að eiga viðskipti við. Í eðli sínu er hér um góða hugmynd að ræða og ég fagna þeirri umræðu sem hér fer fram.