Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 12:35:03 (846)

1999-10-21 12:35:03# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[12:35]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ráðleggingarnar og vil svara því strax til að ég er líka svolítill þjóðernissinni í mér. Mér þætti verra að þurfa að taka peningana mína út úr íslenska hagkerfinu vegna þess að ég ber það fyrir brjósti. Ég vil gjarnan að hér sé öflug peningastofnun, óháð því að setja upp risamálmbræðslur og vinna náttúrunni skaða. Þess vegna er ég í vanda en vil ekki þurfa að taka peningana mína út úr íslenska hagkerfinu, vil ekki þurfa að setja þá undir koddann. Ég vil að hér séu opnar siðareglur þar sem ég get lesið mér til um stefnu viðkomandi stofnunar og fundið hvar ég á bestan samhljóm. Þá segi ég líka: Þess vegna þurfum við að efla það að fjölbreyttar stofnanir séu til staðar, ekki ein stór sem fer undir einn hatt og setur öll sín egg í eina körfu.