Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 12:36:56 (848)

1999-10-21 12:36:56# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[12:36]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að draga á langinn orðaskipti okkar hv. þm. Péturs Blöndals. Ég fæ hann kannski til að taka mig í tíma í meðferð fjármuna þó síðar verði. Það sem mig langar til að segja hér í lok máls míns er að þessi umræða er af hinu góða og heiðarleiki og siðferði í viðskiptum þarfnast öflugrar stefnu. Við höfum tækifæri til þess hér að láta fjármálastofnunum okkar hana í té.

Rétt í lokin vil ég í tilefni af umræðunni um siðferði, virðulegi forseti, vekja athygli á því að þingmönnum hefur verið boðið til einhvers konar símafyrirtækis sem er að opna nýja þjónustu í dag. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sér ástæðu til þess að hringja fyrsta símtalið í þessari símaþjónustu. Ég held að svona hlutir heyri undir umræðuna hér, siðferði í opinberu lífi. Ég spyr út í þingsalinn: Samrýmist það reglum okkar og hugmyndum um siðferði að hæstv. ráðherrar séu hlaupandi inn til einkafyrirtækja út og suður til þess að hringja fyrsta símtalið, ýta á fyrstu takka eða hleypa einhverjum litlum sjónvarpsstöðvum af stokkunum? Þetta sýnir hversu áþreifanlegt þetta vandamál er og hversu mikil þörf er að taka á því.