Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 12:38:29 (849)

1999-10-21 12:38:29# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, KLM
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[12:38]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Aðeins smáinnlegg í umræðuna sem hér er um þáltill. um setningu siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði. Ég vil í lok umræðunnar þakka fyrir hana. Ég held að hún hafi verið sérstaklega góð. Ég vil þakka þeim hv. stjórnarþingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni.

Ég held að það sé mikil þörf á því að Alþingi álykti um að hvetja fyrirtækin á fjármálamarkaðinum til að setja sér, eins og skýrt kemur fram, siðareglur. Við vitum að á hinum unga fjármálamarkaði eru siðareglurnar ekkert sérstaklega fastar í sessi í hlutabréfafyrirtækjunum. Fólk er að hringja og kaupa hlutabréf en þeir sem fara inn á þennan markað og vilja kaupa sér hlutabréf hafa enga vitneskju um hvort sá sem þeir tala við, starfsmaður hjá viðkomandi fyrirtæki, sé jafnvel eigandi bréfanna sjálfur, ef hann er það ekki sjálfur þá kannski fyrirtækið sem hann starfar hjá.

Þá spyr maður: Hvaða siðareglur gilda um það þegar viðkomandi starfsmaður er spurður um álit hans á því hvort hagkvæmt sé að kaupa eða selja.

Ég hef heyrt að eitt fyrirtæki á markaðnum gefi sig út fyrir að þar eigi starfsmenn ekki bréf. Þegar menn eiga viðskipti við það fyrirtæki þá geta menn treyst því að upplýsingarnar séu ekki frá sjálfum eiganda bréfanna.

Hér hefur líka verið fjallað um innhverjaviðskipti. Við höfum svo sem heyrt um það og séð núna undanfarið, nýleg dæmi um sameiningu fyrirtækja þar sem um innherjaviðskipti hefur verið að ræða. Fréttir berast fljótt út. Þetta er lítið þjóðfélag. Það þarf stundum ekki annað en að sjá tvo forstjóra sitja saman á veitingastað og borða til að geta í eyðurnar um hvað sé að eiga sér stað.

Á hinum unga fjármálamarkaði vitum við auðvitað af dæmum um að stjórnendur fyrirtækja á markaðnum hafi getað stýrt ýmsum fréttum frá fyrirtækjunum, sem teljast jákvæðar fréttir, til að hækka gengi hlutabréfa um takmarkaðan tíma. Markaðurinn er svo lítill að menn vita jafnvel hvaða fyrirtæki þetta eru. Menn geta skilgreint atriðin þó ég ætli ekki að gera það úr ræðustól Alþingis. En þetta er svona. Þannig má segja að ef eitthvert verðbréfafyrirtæki gæfi út virkilega góðar siðareglur þar sem tekið væri á þessum þáttum þá mundu, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur bent á, viðskiptin við það fyrirtæki aukast.

Ég segi bara rétt í lokin: Þessi tillaga þingflokks Samfylkingarinnar er mikilvæg fyrir umræðuna um þennan markað. Ég bendi á að það koma tilskipanir ofan frá um það að peningastofnanir skuli setja sér útlánareglur. Þær eru skikkaðar til þess. Hvers vegna skyldi ekki Alþingi hvetja fyrirtæki til þess að setja sér siðareglur? Þessar siðareglur eru af því góða og þessi þáltill. er um að fyrirtækin setji sér sjálf siðareglur.