Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 14:04:39 (852)

1999-10-21 14:04:39# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[14:04]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu mál sem er hluti af málum sem þingflokkur Samfylkingarinnar lagði fram í upphafi þings og hafa það öll að markmiði að stuðla að heilbrigðri samkeppni og sporna gegn samþjöppun valds í samfélaginu. Það er einlæg trú okkar sem að máli þessu stöndum að heilbrigð samkeppni sé nauðsynleg til þess að tryggja lægsta vöruverð og besta þjónustu til handa neytendum. Á þessu byggir líka samkeppnislöggjöfin okkar og þess má sjá stað í þeim markmiðum sem upp eru talin í samkeppnislöggjöfinni, en markmið núgildandi samkeppnislaga eru að efla virka samkeppni í viðskiptum og vinna þannig að hagkvæmri nýtingu á framleiðsluþáttum þjóðfélagsins sem leiða eiga til almennra efnahagslegra framfara. Lögunum er samkvæmt þessu ætlað, með leyfi forseta, að:

,,a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,

b. vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum, skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,

c. auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.``

Markmiðin eru skýr í löggjöfinni sjálfri, en spurningin hins vegar þessi: Eru samkeppnisyfirvöld í stakk búin til þess að ná þeim háleitu markmiðum sem um er getið í löggjöfinni sem þau byggja á?

Eins og fram kom í framsögu 1. flm., hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, er íslensk samkeppnislöggjöf að meginstofni byggð á svokallaðri misbeitingaraðferð. Þetta hefur m.a. gert það að verkum að yfirvöld samkeppnismála hér á landi hafa ekki haft jafngóð tæki til þess að grípa inn í þróun á markaði og þau ríki sem hafa byggt löggjöf sína á bannaðferðinni svokölluðu. Bannaðferðin er skýrari og hún felur í sér hvað má gera og hvað ekki, á meðan misbeitingaraðferðin gerir þá kröfu til samkeppnisyfirvalda að þau sýni fram á skaðsemi samkeppnishamla. Í raun og veru má segja að þau þurfi fyrst að sýna fram á skaðsemina í staðinn fyrir að samkvæmt hinni reglunni þá er skýrt kveðið á um bannið.

Í frv. sem hér er til umræðu er lagt til að við lögum okkar löggjöf að bannreglunni, sem þýðir að samkeppnisyfirvöldum mundi reynast auðveldara að sinna hlutverki sínu auk þess sem sú stefna er í samræmi við þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu að öðru leyti.

Herra forseti. Dæmin úr íslensku viðskiptalífi sanna að full þörf er á því að styrkja samkeppnisyfvöld hér á landi svo þau megi ná markmiðum þeim sem að er stefnt í löggjöfinni. Það virðist einhverra hluta vegna vera lenska hjá ráðherrum í núverandi ríkisstjórn, þó einkum úr röðum sjálfstæðismanna, að gera lítið úr þeim álitum sem Samkeppnisstofnun hefur sent frá sér, eða samkeppnisráð. Fyrrverandi hæstv. samgrh. var drjúgur í sinni gagnrýni á stofnunina og nýbakaður hæstv. samgrh. virðist ekki ætla að breyta frá hefð sem skapaðist í tíð forvera þegar álit Samkeppnisstofnunar í fjarskiptamálum sem snúa að hans málaflokki --- það voru aðallega þau álit sem hafa gefið þeim tilefni til þessarar gagnrýni --- voru til umræðu. Ég verð að segja það að mér hefur oft þótt sem þessi gagnrýni --- þó hún geti verið góð í sjálfu sér --- hafi farið fram úr öllu hófi. Það má velta því fyrir sér hvort það sé t.d. eðlileg málsmeðferð að hæstv. samgrh. skipi sérstaka nefnd þungavigtarmanna til þess að kafa ofan í einstök álit samkeppnisráðs, eins og reyndin varð í einu Landssímamálinu nú nýverið. Er eðlilegt að ráðherra fjarskiptamála búi til nokkurs konar yfirhatt yfir álit sem lögformleg yfirvöld samkeppnismála hafa sent frá sér? Ég verð að segja að ég efast stórlega um þessi vinnubrögð. Mér þykja þau ekki eðlileg og ég tel það ábyrgðarhlut af hálfu ráðherra að nota hvert tækifæri til að lýsa vanþóknun á álitum löglegra samkeppnisyfirvalda sem byggja niðurstöður sínar á lögum sem hafa að sjálfsögðu verið sett hér í þessum sal.

Ég held að það sé ábyrgðarhlutur að grafa þannig undan trúverðugleik samkeppnisráðs og samkeppnisyfirvalda. Ég held að það sé ekki góð ásýnd að það skuli vera þannig nánast í hverju einasta máli að samkeppnisyfirvöld og ráðherra séu í raun tveir andstæðir pólar þegar kemur að álitum eins og t.d. verið hefur í þessum fjarskiptamálum þar sem mér hefur oft þótt hæstv. samgrh. draga mjög taum eins fyrirtækis á markaðnum sem er fyrrum ríkisfyrirtæki. Ég held að það sé mjög óeðlilegt að ráðherra geri það og að hann eigi að varast það að draga taum einhvers málsaðila í slíkum málum.

Það er sem sagt skoðun okkar sem að þessu frv. stöndum að mikilvægt sé að styrkja samkeppnisvöld eins og lagt er til í frv. og stuðla þannig að heilbrigðri samkeppni sem er öllum til góðs þegar til lengdar er litið. Samþykkt þessa frv. yrði til þess að samkeppnisyfirvöld hefðu virkari tæki til þess að sinna þeim háleitu markmiðum sem þeim eru skyld samkvæmt samkeppnislöggjöfinni.