Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 14:24:10 (854)

1999-10-21 14:24:10# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[14:24]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni fyrir það frumvarp sem hér liggur fyrir og ég held að það sé mjög þarft innlegg í þá umræðu sem núna fer fram um samkeppnismál. Þau lög sem núna eru í gildi um samkeppnismál eru í sjálfu sér ekki mjög gömul, þau voru merk nýmæli þegar þeim var komið á 1993. Ég held að fullyrða megi að þá hafi verið stigin skref og þar með vorum við Íslendingar að nokkru leyti á undan öðrum þjóðum hvað það snerti að setja víðtækan lagaramma um samkeppnismál. Nú hefur þetta breyst í löndunum í kringum okkur, bæði í Evrópu og eins í Bandaríkjunum. Menn hafa verið að breyta, setja harðari reglur, sumar af þeim reglum höfum við verið að færa yfir í einstök lagafrumvörp sem tengjast einstökum málum sem fyrst og fremst snúa þá að neytendavernd.

Ég hef sagt og haldið því fram á undanförnum tveimur eða þremur þingum að eðlilegt sé að það reyni örlítið á þau samkeppnislög sem við settum 1993 áður en ákveðið væri að fara í róttæka uppstokkun á því fyrirkomulagi sem við erum með. Ég tel að við séum að fá allgóða reynslu á gildandi lög, ég viðurkenni að þar eru nokkrir þættir sem mættu betur fara og nokkrir þættir sem þarf sérstaklega að líta á. Sumt af því sem að fram kemur í því frumvarpi sem hér hefur verið til umfjöllunar tel ég að eigi mjög gott erindi inn í þá umræðu. Ég skipaði fyrir einu og hálfu ári nefnd til þess að gera úttekt á því hvernig og með hvaða hætti samkeppnislögin hafa virkað á undanförnum árum eða frá því að þau tóku gildi. Sú nefnd er á næstu dögum að ljúka störfum þar sem dregið verður saman allt það sem betur má fara. Að því starfi hafa komið aðilar frá verkalýðshreyfingu, frá vinnuveitendum, frá neytendasamtökum og víða að, eða alls staðar öllu heldur þar sem samkeppnislög koma við. Núna er verið að draga þetta saman í heildstæða skýrslu um það hvaða breytingar þurfi að gera. Í framhaldi af því geri ég ráð fyrir að leggja fyrir Alþingi heildstæðar breytingartillögur við gildandi lög um samkeppnismál. Ég er að vonast til að geta gert það fyrir áramót, en ef ekki, þá strax eftir áramót.

Ég held að það frumvarp sem hér hefur verið til umfjöllunar sé ágætisinnlegg í þá umræðu, en með því er ég ekki að segja að allt sem í því er eigi þarna erindi inn en þar eru þó nokkrir hlutir sem ég tel fulla ástæðu til að taka tillit til, setja inn og styrkja gildandi lög án þess að fullyrða nákvæmlega hér og nú hvað það er sem ætti að fara inn sem breytingartillögur.