Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 14:32:32 (857)

1999-10-21 14:32:32# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[14:32]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki var ég að leggja til að ráðherrann gerði samkeppnismál að kosningamáli. En hafi ráðherra brennandi áhuga á málum þá reynir hann svo sem unnt er að fá niðurstöðu í nefndarstarf meðan hann er í starfi. Það var kannski það sem ég átti fyrst og fremst við. Hvort samkeppnismál eru kosningamál ætla ég ekkert að úrskurða um að öðru leyti en því að heilbrigt og réttlátt þjóðfélag er kosningamál fyrir alla, allt sem gerir það að góðu þjóðfélagi.

Við megum búast við því að þessi mál sem við erum að flytja muni hljóta þau örlög að vera til nokkuð langrar skoðunar í nefndinni. Ég var því að hvetja til þess að ef ráðherrann ætlaði að flytja frv. fljótlega kæmi það fyrr en síðar. Ég tel að það væri mjög farsælt ef samstaða næðist um að afgreiða þetta lagafrv. okkar. Mér finnst það gott og tel að ráðherrann ætti að geta komið fljótlega fram með athugasemdir sem við getum þá skoðað ef einhverjar breytingar þyrfti að gera á máli okkar.

En það sem mér finnst mikilvægt, virðulegi forseti, er það að þrátt fyrir hvatningu okkar í morgun hafa hvorki formaður né varaformaður efh.- og viðskn. setið við þessa umræðu. Afskaplega hefði það verið gott að þeir sem stýra verki í þeirri nefnd mundu heyra viðbrögð héðan úr salnum. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að koma þessum skilaboðum til sinna manna í efh.- og viðskn. Auk þess mun hv. þm. Pétur Blöndal væntanlega taka málið upp. Ég hvet hæstv. ráðherra til að koma þessum ágætu skilaboðum áfram til sinna manna.