Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 15:40:31 (877)

1999-10-21 15:40:31# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég kem hér fyrst og fremst upp í því skyni að reyna að svara nokkrum spurningum sem hv. þm. og hæstv. forseti Alþingis, Halldór Blöndal, beindi til mín í umræðunni áðan.

Í fyrsta lagi vil ég segja, virðulegi forseti, af því að hv. þm. veittist að starfsemi Samkeppnisstofnunar áðan, að þau samkeppnislög sem stofnunin vinnur eftir nú voru sett í tíð hv. þm. sem hæstv. samgrh. Hv. þm. er að því leyti ábyrgur fyrir þeim lögum sem nú gilda. Í máli hans kom hvergi fram að stofnunin sem slík ynni ekki samkvæmt þessum lögum. Fremur fannst mér hann fella sleggjudóma um hana. Hv. þm. færði engin rök fyrir máli sínu en það er vitaskuld algjört grundvallaratriði, virðulegi forseti. Ef menn ætla að verða marktækir í umræðu af þessum toga verða þeir að færa fram rök fyrir máli sínu. Það dugir ekki setja málið fram á þann hátt sem gert var hér áðan.

Ég ætla að reyna að taka fyrir nokkur ummæli og spurningar sem til mín var beint og hv. þm. getur þá bætt við telji hann þeim ekki nægilega vel svarað. Í fyrsta lagi talaði hv. þm. um hlutdræga embættismenn og nefndi sérstaklega að vegna fyrri aðkomu þeirra að málefnum Landssímans væru starfsmenn Samkeppnisstofnunar vanhæfir. Þetta er vitaskuld alveg fráleitt. Hér er um eftirlitsstofnun að ræða sem á að sjá til að samkeppnisreglum sé fullnægt. Til samanburðar mætti taka að ef afbrotamaður bryti af sér í þrígang þá teldist lögreglan vanhæf til þess að rannsaka það mál. Þessar stofnanir hafa það hlutverk að rannsaka mál sem upp kunna að koma. Samkeppnisstofnun hefur það hlutverk og vitaskuld er alveg fráleitt að halda því fram að stofnunin eða starfsmenn hennar séu á einhvern hátt vanhæfir.

Virðulegi forseti. Í ræðu sinni áðan fór hæstv. forseti mikinn og endaði einhvers staðar í umræðunni um fákeppni á fjölmiðlamarkaði. Það má vel vera að í ljósvakafjölmiðlunum séu áhrif einstakra manna meiri en ella. Ríkisvaldið hefur að sama skapi líka sína stofnun. Ég man ekki eftir því, af því að við erum að ræða hérna frv. til breytinga á lögum um samkeppnislög og umræðunni var fyrst og fremst beint að Samkeppnisstofnun, að stofnunin hafi tekið upp málefni á því sviði. Þess vegna átta ég mig kannski ekki alveg á því hvað hæstv. forseti var að fara. Hann fullyrti að Stöð 2 og RÚV hefðu misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Virðulegi forseti. Ég get ekkert um það sagt í sjálfu sér. Ég hef ætlað þessum mönnum að vinna vinnu sína hvað best þeir geta. Ég hef ekki ætlað þeim annað. Ef svo er, þá væri mjög mikilvægt að hæstv. forseti mundi upplýsa við þessa umræðu hvaða dæmi hann á við.

Hæstv. forseti talaði einnig um magnafslátt og átti þar væntanlega við lækkun á símgjöldum og þá jafnframt um flug til Egilsstaða sem hér var rætt áðan. Ég veit ekki hvort það er hægt að bæta miklu við þau mál. En það sem stofnunin hefur gagnrýnt í þessu tilviki er að um svokölluð undirboð sé að ræða. Menn geta rifjað það upp að fyrir nokkrum árum fluttu Norðmenn mikinn lax inn til Skotlands. Þeir fengu sekt fyrir vegna þess að þeir buðu laxinn á verði sem var talið langt undir kostnaðarverði. Það gerðu þeir í því skyni að reyna að tryggja sér sess á markaðnum, koma öðrum út og lækka verðið tímabundið niður fyrir kostnaðarverð. Þeir töldu sig geta gengið á eigin fé tímabundið. Þetta heitir undirboð og er talið mjög alvarlegt brot á samkeppnismarkaði. Með þeim rökum og út frá þessum forsendum hefur Samkeppnisstofnun lagt bann við margumræddum magnafslætti á umræddu flugi til Egilsstaða. Samkeppnisstofnun hefur metið það þannig að tryggja verði samkeppni á þessari leið til Egilsstaða, þ.e. að Íslandsflug geti komið inn á markaðinn en þurfi ekki að keppa á mismunandi forsendum við Flugfélag Íslands.

Virðulegi forseti. Hv. þm. beindi til mín fleiri spurningum en ég fæ væntanlega möguleika í andsvari á eftir til að svara þeim.