Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 15:55:13 (881)

1999-10-21 15:55:13# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður að ég veit ekki hvaða tilgangi það þjónar að halda þessari umræðu áfram. Ég gerði það vísvitandi að láta það niður falla að svara þeirri spurningu sem hv. þm. ítrekaði áðan. En ég verð að segja það, virðulegi forseti, að Samkeppnisstofnun afturkallar ekki úrskurði samkeppnisrsáðs. Og ef hv. þm. er að halda því fram að það hafi gerst í einhverjum tilvikum, þá er hann knúinn til að segja dæmi þar um. Hv. þm. getur ekki borið fram spurningar af þessum toga án þess að færa rök fyrir því hvað hann er að tala um. Það er erfitt að tala við hv. þm. hvort heldur er í ræðu eða í andsvari ef þetta er allt meira og minna á einhverju dulmáli sem enginn skilur.

Virðulegur forseti. Ég kalla bara eftir því að hv. þm. komi hér upp og segi okkur sem ekki vitum í hvaða tilfellum Samkeppnisstofnun, þ.e. stofnunin, embættismennirnir sem slíkir, hafi afturkallað úrskurð samkeppnisráðs því að samkeppnisráð er úrskurðaraðili stofnunarinnar. Niðurstaðan er fengin í samkeppnisráði. Það er sá úrskurður sem síðan er kæranlegur til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Samkeppnisstofnun fellir ekki úrskurð, það er samkeppnisráð. Hafi hv. þm. dæmi um þetta, þá er mjög mikilvægt að hann nefndi þau í stað þess að halda áfram þessari ferð án nokkurs fyrirheits.