Eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 16:09:51 (884)

1999-10-21 16:09:51# 125. lþ. 15.4 fundur 98. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# (stjórnsýsluleg staða, valdheimildir, o.fl.) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[16:09]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir mjörg margt af því sem fram kom í ræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Þó er eitt sem ég vil undirstrika og mér fannst gæta örlítils misskilnings hjá hv. þm. Það er að engin ástæða er til þess að auka sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið er algerlega sjálfstætt og hefur hvað sjálfstæði varðar alla möguleika til þess að takast á við þau vandamál og vandkvæði sem upp koma á fjármálamarkaði.

Hins vegar er ég þeim hluta ræðu hv. þm. algerlega sammála að það þarf, þrátt fyrir að ekki sé langt um liðið frá því að lögin um Fjármálaeftirlitið voru sett þegar Vátryggingaeftirlitið og bankaeftirlitið voru sameinuð í Fjármálaeftirlitinu, að styrkja heimildir Fjármálaeftirlitsins frá því sem er í dag. Ég tek undir það. Allflest af því sem í þessu frv. er eru hlutir sem ég er núna nákvæmlega að láta skoða með hvaða hætti við eigum að efla og treysta Fjármálaeftirlitið því það er rétt eins og fram kom í ræðu hv. þm. að í ljósi reynslunnar á því sem hefur verið að gerast á íslenskum fjármagnsmarkaði vegna hinna öru breytinga og þeirrar þróunar sem þar er, þá eru ýmiss konar hlutir sem hafa verið að koma upp sem gera það að verkum að það er nú þegar komið í ljós að Fjármálaeftirlitið þarf að hafa víðtækari heimildir en það hefur í dag. Þar af leiðandi fara skoðanir ríkisstjórnarinnar og Samfylkingarinnar algerlega saman í þessum efnum.

Ég hef sagt og það hefur komið fram að strax eftir hléið, sem nú verður á störfum þingsins vegna heimsókna þingmanna í þingkjördæmi, mun ég leggja fram á Alþingi frv. til breytinga á lögum um Fjármálaeftirlitið nákvæmlega í þá veru sem var verið að boða í þessu frv. sem hérna er. Þegar ég segi nákvæmlega, þá er það efnislega þannig en ekki að ég sé tilbúinn til að lýsa því yfir að allar einstakar greinar sem hér eru boðaðar fari beint inn í það frv.