Eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 16:12:15 (885)

1999-10-21 16:12:15# 125. lþ. 15.4 fundur 98. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# (stjórnsýsluleg staða, valdheimildir, o.fl.) frv., Flm. MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[16:12]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þær undirtektir og þann skilning sem hann hefur á nauðsyn þess að efla Fjármálaeftirlitið og hlutverk þess og veita því víðtækari heimildir.

Í 1. gr. þessa frv. er kveðið mjög skýrt á um að Fjármálaeftirlitið verði algerlega sjálfstæð stofnun og það á sér fordæmi í öðrum lögum, núgildandi lögum um aðrar stofnanir. Ég efast ekki um að núv. hæstv. ráðherra hefur virt sjálfstæði þessarar stofnunar en ég tel ekki alveg jafnklárt að aðrir sem á eftir kunna að koma og sinna embætti viðskrh. virði þetta sjálfstæði eins og gert hefur verið frá því að lögin tóku gildi. Þess vegna og af þeim ástæðum eingöngu ákváðum við í þingflokki Samfylkingarinnar að taka af öll tvímæli þess efnis að Fjármálaeftirlitið væri sjálfstæð og óháð stofnun. Það yrði að vera þannig í framkvæmd. Það væri hluti af því að hún gæti rækt sitt hlutverk með skilvirkum hætti.