Eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 16:17:24 (888)

1999-10-21 16:17:24# 125. lþ. 15.4 fundur 98. mál: #A eftirlit með fjármálastarfsemi# (stjórnsýsluleg staða, valdheimildir, o.fl.) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[16:17]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Þetta verður óvenjustutt ræða af minni hálfu en þingskapanna vegna kemst ég ekki aftur upp í umræðu um andsvör. En til að leggja aftur áherslu á sjálfstæðið og til að undirstrika það enn frekar þá var það skynsamlegt spor sem menn stigu að mínu viti að sameina eftirlitið á einn stað, en það var þannig að bankaeftirlit var starfandi í Seðlabankanum og Vátryggingaeftirlit var starfandi sem þá um tíma heyrði undir heilbrrh. sem trmrh. en það var síðan fært árið 1993 yfir til viðskrh. Ég tel það hafa verið skynsamlegt spor og um það var tiltölulega góð sátt í þinginu.

En á meðan bankaeftirlitið var til voru haldnir reglulegir fundir milli viðskrn. og bankaeftirlitsins. Það þótti ágætisfyrirkomulag á þeim tíma þar sem þá var verið að kynna fyrir viðskrn. ýmsa þá hluti sem gætu hugsanlega verið að fara á verri veg á íslenskum fjármagnsmarkaði.

Auðvitað kunna slíkir fundir þegar þeir eru haldnir að vekja tortryggni að því leyti til að hugsanlega sé ráðuneyti að hafa einhver áhrif á þá skoðun sem bankaeftirlitið er með á hverjum tíma fyrir sig. Þessir fundir voru aflagðir og ákveðið að slíkir fundir ættu sér ekki stað eftir að Fjármálaeftirlitið var til einvörðungu í þeim tilgangi að undirstrika að stofnunin væri sjálfstæð og óháð. Hins vegar er það hlutverk Fjármálaeftirlitsins að tilkynna til viðskrn. ef einhver stór áföll eru fyrirsjáanleg og koma upp á íslenskum fjármagnsmarkaði. Sem betur fer hefur það í þennan stutta tíma sem Fjármálaeftirlitið hefur starfað enn ekki komið upp og það vil ég undirstrika.