Afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 16:30:44 (891)

1999-10-21 16:30:44# 125. lþ. 15.5 fundur 15. mál: #A afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga# frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[16:30]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég tek undir það hjá hv. þm. Gísla Einarssyni að það er dálítil synd að ekki skuli fleiri vera viðstaddir umræðuna um þetta mikilvæga mál. Einhvern tíma hefði það verið svo að hér hefðu margir tekið til máls um nákvæmlega þetta. Á undanförnum 20 árum eða svo hefur þetta mál oft á tíðum komið til umfjöllunar í þinginu þegar menn hafa reynt að skýra út bæði vandamál fyrirtækja og fjölskyldna í landinu.

Fljótlega eftir að ég varð viðskrh. 1995 lét ég skoða sérstaklega hvernig þessum hlutum væri háttað. Upp úr því lágu fyrir tillögur um hvernig menn ætluðu að reyna að komast út úr verðtryggingunni. Þær tillögur lágu fyrir frá Seðlabankanum. Ég féllst á þær tillögur og síðan í september 1995 hefur verið í gangi ferli sem byggist á því að um næstu áramót sé kominn af stað síðasti áfangi að þess að menn komist að fullu út úr verðtryggingu innlána en sjö ára bréf í útlánum væru hins vegar með verðtryggingu áfram.

Fyrir rúmu ári setti ég af stað nefnd til að fara ofan í það hvernig til hefði tekist. Allt sem menn áætluðu hefur gengið eftir, þ.e. allar viðmiðanir um afnám verðtryggingarinnar en það þurfti líka að meta hvort skynsamlegt væri að stíga næsta skref. Niðurstaða hópins var sú að ekki væri rétt að halda áfram að svo komnu máli.

Þá fannst mér rétt að doka við og ákvað að hrinda ekki síðasta áfanga málsins í framkvæmd um næstu áramót. Reyndar var niðurstaða nefndarinnar að ekki væri rétt að gera það. Ástæðan er sú að ég tel að á meðan við höfum ekki ákveðið að stíga næsta skref um áframhaldandi afnám og sú óvissa sé til staðar þá sé ekki hægt að hafa útlánin verðtryggð en innlán óverðtryggð. Það er meginástæðan fyrir því að ég tók þá ákvörðun að fresta gildistöku síðasta áfangans í því ferli sem menn settu upp árið 1995. Ég vil sjá hvað setur.

Mig langar til að vitna hér --- þó ekki sé nema okkur þremur þingmönnum sem hér erum til fróðleiks --- í nokkur atriði í fróðlegri skýrslu sem tekin var saman upp úr þeirri niðurstöðu sem ég var að lýsa áðan.

Það sem hefur verið að gerast á tímabilinu 1990--1998, þrátt fyrir að áðurnefnt ferli hafi verið í gangi, er að hlutfall verðtryggðra eigna í lánakerfinu hefur verið að aukast. Árið 1990 var þessi samsetning eigna í lánakerfinu þannig að 47% voru verðtryggð, 16% óverðtryggð og 37% í gengistryggingu. Núna eru verðtryggingarnar komnar upp í 52%, það sem er óverðtryggt er komið upp í 18% en það hefur dregið úr gengistryggingunum sem eru komnar niður í 30%. Með öðrum orðum: Þrátt fyrir að við höfum stigið skref út úr verðtryggingunni þá hafa viðbrögð markaðarins í raun verið þau að menn hafa fikrað sig inn á verðtrygginguna. Um leið að skuldbindingar hafa verið að aukast þá hefur það verið á kostnað gengistryggingarinnar. Menn hafa ekki viljað taka áhættuna í gengistryggingunum.

Ef við horfum á þetta og reynum að einangra, þetta var lánakerfið í heild sinni, og skoðum það síðan út frá skuldum heimilanna, þá voru 87,1% skulda heimilanna verðtryggð 1990 en 87,6% árið 1998. Þar verður maður strax var við að ferlið sem ég lýsti áðan, til að losna út úr verðtryggingunni, hafði áhrif vegna þess að 1995 var hlutfallið þannig að 90,7% af öllum skuldum heimilanna voru verðtryggð en er 1998 komið niður í 87,6%. Þar er ekki um neinar gengistryggingar að ræða þannig að þar hefur beinlínis verið um flutning á milli verðtryggingar og óverðtryggðra skulda að ræða. Þetta hefur því haft áhrif, það ferli sem þarna var sett upp, hvað þetta snertir.

Skuldir heimilanna skiptast þannig, og þá miðað við 1997, að 80 milljarðar kr. eru í bankakerfinu eða 21%. Í fjárfestingarlánasjóðunum eru 17 milljarðar eða 56%, í lífeyrissjóðum 40 milljarðar eða um 10%, í Lánasjóði ísl. námsmanna 38 milljarðar eða 10%, annað er upp á 11 milljarða eða 3%. Samtals eru þetta 386 milljarðar kr. Ég ætla ekki að rekja einstakar stærðir frekar við þessa umræðu. Reyndar er fróðlegt að bera saman einstaka flokka markaðsverðbréfa og bankabréfa en ég ætla ekki að eyða tímanum í það en koma aðeins inn á kosti þess og ókosti að vera með verðtryggingu, sem hér hafa verið settir í lista.

Rökin á móti verðtryggingunni eru í fyrsta lagi að hún sé tákn um ákveðinn óstöðugleika. Menn komu verðtryggingunni á við þær aðstæður er óstöðugleiki var í efnahagsmálum. Menn hafa sagt: Eftir að stöðugleikinn er orðinn til staðar er þá ekki hægt að fikra sig út? Ég kem aðeins betur inn á það á eftir.

Verðtryggingin er litin hornauga af erlendum fjárfestum. Menn þekkja þá sögu og óþarfi að rifja það upp. Þegar erlendir fjárfestar koma hingað og velta fyrir sér hvort ekki sé skynsamlegt að fjárfesta í íslenskum bankabréfum sem eru verðtryggð þá vaknar oft spurningin: Hvað eigið þið við með þessari verðtryggingu? Hver er þessi vísitala, hver er þessi lánskjaravísitala? Þegar það er útskýrt þá er næsta spurning: Hafa menn einhvern tíma gert einhverjar breytingar á henni? Já, já, niðurstaðan er sú að það er alltaf verið eitthvað að krukka í hana. Þá segja menn: Nei, ekki svona pappíra fyrir mig, takk. Þetta er kannski ein ástæðan fyrir því hve erfiðlega hefur gengið að koma verðbréfum á markað erlendis.

Þetta hefur skaðað lánshæfismat þjóðarinnar. Verðtryggingin hefur leitt til andvaraleysis í hagstjórn. Sjálfvirkni með verðtryggingu kemur í veg fyrir eðlilega sveiflujöfnun á mörkuðum. Hún skapar mikla rekstraráhættu fyrir bankana, leiðir til tvöfalds vaxtakerfis, setur áhættu á skuldarann, misvægi í þróun launa og verðlags og ýmsir utanaðkomandi þættir hafa þannig sjálfvirkt áhrif á lánskjörin.

Það er alveg klárt að það eru veigamikil rök á móti verðtryggingunni og ekki bara það sem hv. þm. kom inn á áðan. Mér finnst það ekki nægjanleg rök fyrir afnámi hennar að skoða greiðsluseðla. Það mætti líka skoða greiðsluseðla og segja: Hvernig litu þeir út ef verðtryggingin hefði ekki komið til, ef bara hefðu verið vextirnir? Ég kem kannski aðeins inn á það á eftir.

Kostirnir eru hins vegar þeir að lánveitandinn losnar við verðbólguáhættuna. Þegar verðbólgan er lág og við komin með talsverðan stöðugleika þá ætti það í sjálfu sér að vera í lagi, þ.e. að meðaltali eru verðtryggðu fjárskuldbindingarnar um 2% lægri hér á landi en ef þær væru óverðtryggðar.

Lánveitandinn veitir verðtryggð lán til lengri tíma en þau óverðtryggðu. Það er út af áhættunni. Við þyrftum að búa við skemmri lánstíma ef við værum ekki með verðtrygginguna. Afnám verðtryggingar mundi þar af leiðandi leiða til styttri lánstíma, hærri raunvaxta og þar með hærri greiðslubyrði af lánum. Þetta er kannski meginástæðan fyrir því að ég vildi doka við. Þegar maður skoðar --- og það verða síðustu orð mín hér --- samanburðinn á raunvöxtum frá 1990 til ársins 1997, annars vegar á óverðtryggðum lánum og hins vegar á verðtryggðum lánum, þá kemur í ljós, því miður, að raunvaxtabyrðin er á bilinu 2--3% meiri á óverðtryggðum lánunum en á þeim verðtryggðu. Þá þurfum við að meta stöðuna kalt. Erum við tilbúin til þess að stíga skrefið út úr verðtryggingunni á þessari stundu og leggja á fólk og fyrirtæki í landinu 2% meiri vaxtabyrði en menn hafa borið að meðaltali frá 1990--1997?

Þarna miða ég við mjög skamman tíma. Við höfum heldur ekki langa sögu í þessum verðtryggingarmálum öllum. Þetta gefur kannski ekki nákvæmlega rétta mynd af því hvernig þetta muni þróast þegar til lengri tíma er litið. Ég tek þennan tíma ekki af því að hann er hentugur heldur bara af því þetta er tími sem við höfum greinargott yfirlit yfir þetta atriði. Við erum með 2--3% hærri vexti, hærri greiðslubyrði vaxta á óverðtryggðum skuldum en verðtryggðum. Það er þess vegna sem ég vara við að stíga skrefið. Ég er í sjálfu sér talsmaður þess að við fikrum okkur út úr þessu eins og ég lýsti hér áðan en ég vara við að stíga skrefið núna ef það mundi leiða til þess arna.