Umgengni barna við báða foreldra

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 15:27:13 (914)

1999-11-01 15:27:13# 125. lþ. 16.1 fundur 97#B umgengni barna við báða foreldra# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Þetta mál er mjög áhugavert og svo sannarlega er ástæða til þess að gaumgæfa vel að bæta réttarstöðu barna til umgengni við báða foreldra sína. Ég held að það sé enginn pólitískur ágreiningur um það. Þegar hafa reyndar verið gerðar ýmsar lagabreytingar þar sem börnum hafa m.a. verið skipaðir talsmenn í erfiðum málum sem þau snerta. Engu að síður þarf að huga enn betur að þessum málum. Eins og við vitum eru þau oft mjög erfið og vandmeðfarin og þess vegna hef ég lagt áherslu á að farið verði af stað með ákveðið tilraunaverkefni sem byrji núna við embætti sýslumannsins í Reykjavík þar sem boðið verði upp á tilraun til að leita sátta foreldra sem eru að skilja þannig að þeir geti leitað þar eftir ráðgjöf og aðstoð, ekki síst með tilliti til þeirra sjónarmiða að barnið líði sem minnst og að það verði gengið vel frá því að báðir foreldrar geti umgengist barnið því við skulum ekki gleyma því að það er barnið sem á rétt á að umgangast foreldra sína.

Varðandi þessa nefnd sem hv. þm. spyr um þá mundi ég vilja fá að kynna mér málið betur. Það er reyndar búið að skila ýmsum tillögum í sambandi við þessi mál sem ég hyggst kynna fljótlega og vænti þess að þá fái hv. þm. frekari svör við sínum spurningum.