Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 16:25:53 (929)

1999-11-01 16:25:53# 125. lþ. 16.6 fundur 63. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[16:25]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum Drífu Hjartardóttur, Guðjóni A. Kristjánssyni, Ólafi Erni Haraldssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur og Ögmundi Jónassyni.

Efni tillögunnar er að ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga. Markmið stefnumótunar verði að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins og búa þeim sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska. Í því skyni verði skipuð nefnd með aðild forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Á grundvelli stefnumótunar framangreindra aðila verði gerð fimm ára framkvæmdaáætlun í samráði við opinberar stofnanir og félagasamtök sem vinna að málefnum barna og unglinga, þar með talin félagasamtök unglinga.

Framkvæmdaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi til staðfestingar eigi síðar en 1. janúar árið 2001.``

Þannig hljóðar þessi tillaga en hún er í samræmi við ítrekaðar óskir embættis umboðsmanns barna og í samræmi við þær leiðir sem hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa farið varðandi heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

Eins og kemur fram í grg. frv. hefur umboðsmaður barna allt frá árinu 1995 vakið athygli stjórnvalda á því hve brýnt væri að móta skýra heildarstefnu í málefnum barna og unglinga og aðgerðir samræmdar af hálfu þeirra á hinum ýmsum sviðum er snerta hagi barna.

Í skýrslu umboðsmanns barna árið 1996, þar sem ég hygg að þetta hafi fyrst komið fram, segir, með leyfi forseta:

,,Það ætti að vera aðalsmerki hverrar ríkisstjórnar og hverrar sveitarstjórnar að tryggja öllum börnum sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska, en að mínu mati verður því markmiði einungis náð með því að mótuð verði skýr opinber heildarstefna í málefnum þeirra og aðgerðir samræmdar af hálfu stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, á hinum ýmsu sviðum er varða börn og ungmenni, hvort sem er á sviði barnaverndarmála, skólamála, heilbrigðismála, menningarmála og öryggismála almennt, svo að mikilvægir málaflokkar séu nefndir. Með þessu móti tel ég að velferð umbjóðenda minna, fjölmennasta aldurshópsins í íslensku samfélagi, verði best borgið þegar til lengri tíma er litið.``

Umboðsmaður barna ítrekar þetta í skýrslu sinni 1998. Í skýrslunni kemur fram bréf sem umboðsmaður ritaði forsrh. í tilefni bókar sem undirbúin var á vegum embættis umboðsmanns, sem heitir Mannabörn eru merkileg, og fjallar um ýmsar staðreyndir um börn og unglinga og hagi þeirra. Í bréfinu sem umboðsmaður ritar til forsrh. segir, með leyfi forseta:

,,Í formála, þar sem bókinni er fylgt úr hlaði, kemur m.a. fram að aðalmarkmið mitt með því að safna saman fyrirliggjandi upplýsingum um börn og ungmenni á Íslandi í eina bók var að fá sem heillegsta mynd af stöðu og högum umbjóðenda minna. Ég tel jafnframt efni bókarinnar vera afar gagnlegan grunn, sem byggja verði á við mótun opinberrar heildarstefnu í málefnum barna og ungmenna hér á landi, en ég hef ítrekað hvatt til að ráðist verði í það brýna verk. Ég vil því nota þetta tækifæri og leggja enn á ný áherslu á mikilvægi þess að hér á landi verði mótuð opinber heildarstefna í málefnum umbjóðenda minna. Í kjölfar þeirrar stefnumótunar yrði síðan að koma áætlun af hálfu stjórnvalda til nokkurra ára um hvernig eigi að framkvæma stefnuna. Hér á Íslandi höfum við allar forsendur til að byggja upp fyrirmyndar þjóðfélag sem setur líf og velferð barna, komandi kynslóðar, í öndvegi.``

[16:30]

Herra forseti. Ég hef vitnað til orða umboðsmanns barna sem gerst þekkir til varðandi hagi barna og hefur m.a. ritað þá bók sem ég nefndi áðan og safnað saman þeim gögnum sem liggja fyrir í henni og ætti vel að þekkja til hvað brýnt er að móta stefnu um hag og velferð barna í íslensku þjóðfélagi og hefur umboðsmaður hvatt stjórnvöld til þess án þess þó að það hafi verið gert. En hér liggur fyrir þverpólitísk tillaga flutt af þingmönnum úr öllum flokkum þar sem hvatt er til að þetta verði gert.

Eins og ég sagði hafa hin Norðurlöndin öll mótað stefnu í málefnum barna og unglinga. Við flm. nefnum í greinargerðinni að árið 1986 var lögð fyrir danska þingið af hálfu þáverandi félagsmálaráðherra tillaga um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga, en á grundvelli þeirrar tillögu, sem samþykkt var í janúar 1987, var skipuð nefnd með aðild þeirra ráðuneyta sem málefni barna og unglinga heyra til. Á grundvelli stefnumótunar var síðan unnin ítarleg framkvæmdaáætlun sem tók einnig mjög mikið tillit til sjónarmiða unglinga sem að stefnumótuninni komu.

Herra forseti. Það er einmitt lögð mikil áhersla á það í tillögunni að að þessari stefnumótun komi einnig þeir sem tillagan snýr að, þ.e. börn og unglingar en það hefur verið gert á hinum Norðurlöndunum með góðum árangri. Eins er mjög mikilvægt, eins og fram kemur í tillögunni, að ekki verði einungis um almenna stefnumótun að ræða heldur verði ráðist í það að gera framkvæmdaáætlun til nokkurra ára í senn, nefnd eru fimm ár, sem fylgt verður fast eftir að verði framfylgt.

Við flm. nefnum í greinargerðinni að við höfum kynnt okkur ítarlega og heildstæða stefnumótun í málefnum barna og unglinga í Noregi sem tekur á öllum þáttum þjóðlífsins sem snúa að málefnum barna og unglinga, en í þeirri stefnu er þungamiðjan að öryggi, umönnun og góð uppvaxtarskilyrði barna og unglinga séu meðal mikilvægustu verkefna stjórnvalda. Þar er lögð megináhersla á þátttöku og ábyrgð barna og unglinga í stefnumótuninni þannig að þarfir og áhugamál þeirra eru tekin alvarlega í stefnu og framkvæmdaáformum stjórnvalda. Í allri löggjöf er einnig litið til áhrifa hennar á málefni barna og unglinga. Mikið vantar upp á að það sé gert hér á landi. Þar skemmst að minnast barnabótanna sem ég held að hafi frekar verið bein sparnaðartillaga hjá ríkisvaldinu en þar hafi verið höfð í huga málefni fjölskyldunnar eða barna og unglinga.

Á hinum Norðurlöndunum er einnig mikil áhersla lögð á samvinnu og samráð opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, í þessum málum með því að leggja á þau ábyrgð og skyldur í heildstæðri og samfelldri stefnumörkun á öllum sviðum sem lúta að málefnum barna og unglinga.

Ég held að ljóst sé að við erum komin mun styttra á veg en hinar Norðurlandaþjóðirnar, sem við að öðru jöfnu berum okkur þó saman við, varðandi það að tryggja hag og velferð barna hér á landi. Ég held að tína megi ýmislegt til hvað varðar stöðu barna í íslensku þjóðfélagi sem kallar á að slík stefnumótun fari fram sem hér er lögð til. Aðstaða barna hér er á margan hátt ólík því sem gerist og gengur annars staðar á Norðurlöndum. Hér vinna fjölskyldur og foreldrar miklu lengri vinnudag en þar þekkist. Við þekkjum það gegnum árin hvernig börnin verða þátttakendur í atvinnulífinu mjög snemma. Við þekkjum tvöfalt vinnuálag kvenna, fæðingarorlof er mun styttra en annars staðar gerist. Réttur foreldra vegna veikinda barna er miklu minni en annars staðar á Norðurlöndum, eins og fram kemur í öðru þingmáli sem ég hef flutt, og erum við þar langt að baki Norðurlandaþjóðunum. Auk þess er slysatíðni barna mun meiri hér en í nágrannalöndunum. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur flutt mjög athyglisvert mál hér á þingi um öryggismiðstöð barna en í því frv. og greinargerð kemur fram að tíðni barnaslysa hér á landi er miklu hærri en í nágrannalöndunum og athyglisvert sem hv. þm. bendir þar á að í einstökum slysaflokkum, svo sem drukknunarslysum, er tíðni með því hæsta sem þekkist á Vesturlöndum.

Allt þetta sem ég nefni rennir auðvitað stoðum undir það að mjög nauðsynlegt er að móta stefnu í málefnum barna og fylgja henni eftir með ítarlegri framkvæmdaáætlun.

Ég nefndi áðan að við værum að baki öðrum þjóðum. Ég nefndi ákveðna málaflokka. Vissulega fylgist að það fjármagn sem við verjum til málefna barna og sú þjónusta sem við veitum börnum. Þar erum við langt að baki hinum Norðurlandaþjóðunum. Ég bað Hagstofuna fyrir nokkru að taka saman upplýsingar um stöðu fjölskyldunnar og barna í íslensku þjóðfélagi, en sú samantekt fylgir með sem fylgiskjal með öðru frv. sem ég nefndi áðan, frv. um veikindarétt foreldra vegna veikinda barna. Þar koma fram mjög athyglisverðar tölur. Borin eru saman t.d. útgjöld hér á landi sem koma til vegna fjármögnunar peningagreiðslna og þjónustu við fjölskyldur og börn á Íslandi. Þar kemur fram, herra forseti, sem mér finnst mjög athyglisvert að útgjöld hafa staðið í stað frá árinu 1991, eða svo langt sem ég hef töfluna, til loka 1997. Og ég hygg að hægt sé að segja að fram á þennan dag eru útgjöldin nánast óbreytt og hafa verið allan þennan áratug vegna þess að ef tekin eru útgjöld á verðlagi ársins 1997, sambærilegu verðlagi, þá voru 11,7 milljarðar veittir 1991 til þjónustu við fjölskyldur og börn, hvort sem það var í formi þjónustu eða peningagreiðslna, en árið 1997 voru það 11,8 milljarðar þannig að það hefur lítið breyst.

Það sem hefur breyst er að hlutur ríkissjóðs hefur dregist mjög saman á þessu tímabili. Fjármögnun ríkissjóðs var til málefna barna og fjölskyldna þeirra um 59% á árinu 1991, en er nú orðið 47% meðan sveitarfélögin voru með 30,8% en eru komin með 45,7% fjármögnun í þeim útgjöldum sem ég nefndi.

Samt er það svo, herra forseti, að hlutfallslega eru börn miklu fleiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum og munar þar verulegu. Ef við tökum fjölda barna 0--17 ára sem hlutfall íbúa í heildaríbúatölu, þá eru það 28,8% á Íslandi meðan þessi aldursflokkur er 21--23% annars staðar á Norðurlöndum. Samt verjum við í heild miklu minna fjármagni til útgjalda barna og fjölskyldna þeirra.

Við getum tekið t.d. þjónustuna. Það er mjög sláandi. Í þeirri töflu sem ég er með er samanburðurinn gerður í jafnvirðisgildum í ekum á íbúa vegna barna 17 ára og yngri. Þar kemur fram að við verjum 872 ekum á íbúa á móti 2.359 t.d. í Danmörku. Það er þrefalt meira sem varið er í útgjöld vegna þjónustu við börn t.d. í Danmörku og tvöfalt meira í Finnlandi og rúmlega tvöfalt meira í Noregi. Við sjáum að við erum þarna langt að baki. Ef skoðaðar eru peningagreiðslur þar sem jafnvirðisgildi er líka skoðað í ekum á íbúa, þá erum við með 1.115 ekur á meðan hinar Norðurlandaþjóðirnar eru með frá 1.500--2.280 ekur sem er í því tilviki helmingi meira sem hin Norðurlöndin verja á íbúa til barna 17 ára og yngri. Það er sama hvort litið er til peningagreiðslna, þjónustu eða hvaða mælikvarða sem við notum. Við erum langt að baki hinum Norðurlandaþjóðunum. Við höfum enga stefnumótun, við höfum enga framkvæmdaáætlun eða áætlanir að því er varðar aðgerðir til að tryggja betur hag og velferð íslenskra barna í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Það er því allt sem mælir með þeirri tillögu sem flutt er af okkur sex þingmönnum úr öllum flokkum sem sæti eiga á þinginu sem undirstrikar að verulegur áhugi er fyrir því, herra forseti, að sú stefnumótun sem ég nefndi fari fram og framkvæmdaáætlun verði gerð. Það er grundvallaratriði hjá þjóðum sem kenna sig við velferðarsamfélög að búa vel að börnum og unglingum og tryggja þeim sem jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska eins og frekast er unnt. Heildstæð og samræmd opinber stefnumótun í málefnum barna og unglinga, sem framkvæmdaáætlun til nokkurra ára byggist síðan á, er forsendan fyrir skipulögðu og markvissu starfi í því efni til að tryggja betur hag og velferð barna hér á landi.

Ég vil ítreka það í lokin, sem ég veit að umboðsmaður barna leggur líka mikla áherslu á, að í öllu starfi og stefnumótun sem þáltill. gerir ráð fyrir verði eins og kostur er tekið tillit til sjónarmiða og viðhorfa barna og unglinga.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu verði málinu vísað til hv. félmn.