Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 16:57:15 (932)

1999-11-01 16:57:15# 125. lþ. 16.6 fundur 63. mál: #A heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[16:57]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Mér finnst mjög ánægjulegt með tilliti til þess hve þetta mál er mikilvægt að farið hefur fram nokkur umræða um það og athyglisverðar upplýsingar sem komu fram í máli beggja þingmanna sem tekið hafa þátt í umræðunni ásamt mér.

Vissulega er athyglisvert sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi um stöðu barnaverndarmála að það sé aðeins einn þáttur í því sem varðar hag og velferð barna, barnaverndarmálin og framlög til þeirra, sem við getum borið okkur sæmilega saman við aðrar þjóðir. Þar er þó vissulega ýmislegt sem betur má fara. Ég minnist þess þegar ég var félmrh. að það fyrirkomulag er mjög slæmt að hér skuli vera eins margar barnaverndarnefndir og raun ber vitni um allt land og er mjög mikilvægt að sameina og stækka barnaverndarumdæmin.

Af því að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefndi mál sem dreift var fyrr í dag, um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þá er það auðvitað mjög mikilvæg tillaga. Þar kemur fram að enn skortir á að íslenskur réttur uppfylli ákvæði barnasáttmálans og það er langt í land með að lagaframkvæmd sé í samræmi við anda sáttmálans, þ.e. að börn og ungmenni innan 18 ára aldurs hér á landi njóti þeirrar verndar sem sáttmálanum er ætlað að veita. Sú úttekt sem þar er lögð til er mjög mikil grundvallarforsenda líka fyrir þeirri áætlun sem hér er lögð til og stefnumótun að við stöndum okkur í því að uppfylla ákvæði barnasáttmálans.

Vissulega er ástæða líka af því tilefni að minna á að í þessum mánuði, 20. nóvember, eru liðin tíu ár frá gildistöku barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég held að það væri vissulega vegsauki fyrir þessa samkomu, Alþingi Íslendinga, ef við gerðum átak í því að tryggja betur hag og velferð barna, t.d. með samþykkt þeirrar þáltill. sem hér er á dagskrá, um heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga, og reyndar einnig þeirri sem ég nefndi sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur forustu fyrir, um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Það er ekki oft, herra forseti, sem þverpólitísk samstaða næst um flutning á þingmálum. Þetta er eitt þeirra, herra forseti, og það gefur von til þess að á þessu þingi náum við að stíga stórt skref fram á við til þess að bæta stöðu og hag barna í íslensku samfélagi.