Málefni innflytjenda á Íslandi

Mánudaginn 01. nóvember 1999, kl. 17:29:52 (935)

1999-11-01 17:29:52# 125. lþ. 16.8 fundur 91. mál: #A málefni innflytjenda á Íslandi# þál., ÁGunn
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 125. lþ.

[17:29]

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég get glatt hv. þm. Ögmund Jónasson með því að nú þegar hefur verið sett af stað vinna sem tekur efnislega á innihaldi þáltill. hans. Ég þakka honum fyrir að vekja athygli á þessu vegna þess að þetta eru mál sem þarf að ræða og bregðast við.

[17:30]

Félmrh. hefur fyrir nokkru óskað eftir tilnefningum í nefnd sem á að taka saman þá vinnu og þær tillögur sem unnar hafa verið í málefnum nýbúa og skoða m.a. stofnun sérstakrar landsmiðstöðvar fyrir nýbúa. Mér er kunnugt um þetta vegna þess að óskað hefur verið eftir því að skoðuð verði sú reynsla sem fengist hefur af störfum flóttamannaráðs þar sem ég hef verið starfandi formaður um nokkurra ára skeið. Mig langar að fara aðeins yfir reynsluna af þeim sem ég held að ég geti sagt að hafi verið mjög góð.

Við verðum að hafa í huga að flóttamenn eru annar hópur en nýbúar. Við megum ekki rugla saman flóttamönnum og öðrum innflytjendum sem hingað koma. Flóttamenn eru í þeirri stöðu að þeim er ekki vært í heimalandi sínu og hafa þurft að sæta ofbeldi og ofsóknum. Þar af leiðandi er réttlætanlegt að taka sérstaklega á málefnum þeirra. Í flóttamannaráði höfum við fylgt þeirri reglu að leggja áherslu á að mennta börn flóttamanna á sinni eigin tungu og á íslensku, þ.e. stuðla að svokölluðu tvítyngi, sem ég tel vera grundvallaratriði fyrir félagslegum þroska þeirra. Við getum líkt þessu við það þegar Íslendingar fluttu til Vesturheims og lögð var áhersla á að við héldum menningarlegum séreinkennum okkar en yrðum samt sem áður fullgildir íbúar Kanada, Bandaríkjanna og víðar, eftir því hvar menn settust að.

Í öðru lagi höfum við lagt áherslu á að kenna flóttamönnum íslensku og aðlaga þá að íslensku samfélagi. Markmiðið hefur verið að flóttamenn, fullorðnir einstaklingar og börn, verði sjálfbjarga í íslensku þjóðfélagi eftir þetta eina ár sem flóttamannaaðstoðin stendur og það hefur tekist hjá okkur. Við höfum haft reynslu af þessu vinnulagi í fjögur ár. Við höfum flutt inn um 150 flóttamenn. Þar af hefur nokkur hópur snúið til baka en þeir sem hafa sest hér að eru allir sjálfbjarga og gengur vel. Ungmennum í hópunum gengur vel í skóla og gengur vel að aðlagast íslensku samfélagi. Því miður er ekki hægt að segja sömu sögu af þeim sem að ekki hafa notið íslenskukennslu og kennslu á eigin móðurmáli eins og þau dæmi vitna um sem hv. þm. nefndi hér á undan.

Sérstaklega er mikilvægt að hafa í huga að fjölgun innflytjenda og nýbúa er ný staða. Ég held að ég fari rétt með það að börn af erlendu bergi brotin eða öllu heldur innflytjendur á skólaskyldualdri --- ég tel ekki með börn af erlendu bergi brotin sem eru fædd hér --- séu um 1.300 talsins og þar af um 500 á leikskólaaldri. Þetta þýðir að við erum komin með umtalsverðan hóp af nýbúum eða innflytjendum inn í skólakerfið sem við þurfum að taka sérstakt tillit til svo hann verði ekki annars flokks og falli út úr kerfinu. Í þessu efni er samstarf við sveitarfélögin sérstaklega mikilvægt. Ég legg á það áherslu að rétturinn til félagsþjónustu á vegum félagsmálastofnunar sveitarfélags fylgir lögheimilinu. Um leið og nýbúi eða innflytjandi er kominn til landsins og skráir sig með lögheimili hér þá öðlast hann þau réttindi sem aðrir öðlast samkvæmt félagsþjónustulögum.

Önnur þjónusta hins vegar, t.d. þjónusta á vegum ríkisins sem niðurgreidd er af Tryggingastofnun, fylgir ekki þessari reglu heldur þurfa menn að hafa verið búsettir hér í ákveðinn tíma til þess að öðlast þau réttindi. Upp hafa komið dæmi t.d. um að maki íslensks ríkisborgara sem var í námi erlendis og kom hingað til lands með manni sínum vanfær þurfti að borga kostnað sjúkrahússins við fæðinguna. Það er mjög bagalegt að hafa þetta þannig. Því þarf að huga að þessum þáttum líka. Það þarf að taka allt inn í dæmið og ná góðu samstarfi við sveitarfélögin um framkvæmd þessa, þar sem sveitarfélögin sjá um félagsþjónustuna og grunnskólann.

Ég ætla ekki að hafa þetta mál mikið lengra en vil upplýsa að þetta starf er þegar farið af stað. Þar eiga aðild fulltrúar sveitarfélaga og verkalýðshreyfingar og ég vona svo sannarlega að pólitísk samstaða verði um að vel takist til.