Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 14:24:40 (941)

1999-11-02 14:24:40# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[14:24]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svar við spurningu minni um hvernig hann skilgreindi hina norðlægu vídd og ég vænti þess að hann fylgi eftir þeirri skilgreiningu sem ég er út af fyrir sig sammála, enda er það í samræmi við skilgreiningu Norðurlandaráðs á grenndarsvæðum. En ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst það nokkur tíðindi að utanrrh. skuli ekki í ræðu sinni sjá ástæðu til að minnast sérstaklega á þá viðburði sem urðu þegar Bandaríkjaþing setur fótinn fyrir þá ánægjulegu þróun til friðar og öryggis í heiminum, þegar Bandaríkjaþing fellir tillögu forseta Bandaríkjanna um að staðfesta samninginn um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn.

Hæstv. utanrrh. hefur oft rætt um málefni Balkanskaga þannig að fyrir liggur hver afstaða hans og skoðanir eru á þeim málum. En það eru og eiga að vera tíðindi frá NATO-ríki eins og Íslandi að utanrrh. landsins lýsi andstöðu og óánægju sinni með afgreiðslu bandalagsþjóðar á tillögum um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn sem eru þess eðlis að það setur friðarferlið í hættu og gerir það að verkum að aðilar, stórveldi sem hafa yfir kjarnorkuvopnum að ráða og ætluðu sér að fylgja í kjölfarið um að staðfesta bann við tilraunum með kjarnorkuvopn, virðast vera að skipta um skoðun. Ég tel það nauðsynlegt, virðulegi forseti, að hæstv. utanrrh. Íslands fordæmi þetta og sendi þau skilaboð frá sér og frá okkur að við fordæmum slíkt atferli og gerum það að sjálfsögðu í fullri vináttu við okkar bandalagsþjóð, en að við sendum þau skilaboð að NATO-þjóðin Ísland sé ekki ánægð með slíka afgreiðslu.