Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 14:46:08 (945)

1999-11-02 14:46:08# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[14:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst alveg dæmalaust að hlusta á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Ég veit að vísu að hann er á móti mörgu og heldur hverja ræðuna á eftir annarri þar sem hann er á móti öllu og telur upp allt sem hann er á móti. Ég hef orðað það þannig að hann sé á móti framtíðinni. Mér finnst hann vera á móti framtíðinni. Hann er á móti því að athuga málin. Næst gæti hv. þm. komið hér upp og talað á móti því að skoða himininn og líta í kringum sig. Er ekki skylda okkar að fylgjast með því sem er að gerast? Ég fullyrði að hið nákvæmlega sama er að gerast í öðrum löndum, í Noregi, í Sviss og í Liechtenstein.

Hvernig stendur á því að hv. þm. er á móti því að fara yfir þessi mál? Er hann svona hræddur við þessa umræðu? Er hann svo hræddur við lýðræðið að ekki megi leiða fram ákveðna hluti og benda á ákveðnar staðreyndir? Þá segir hv. þm. að hann efist um að úttektin verði hlutlaus og fagleg. Ég geri mér svo sem engar vonir um að hv. þm. muni finnast þessi úttekt hlutlaus. Ég geri mér ekki vonir um það en utanrrn. og starfsmenn þess ætla sér að vinna hana með þeim hætti. Hún verður þá grundvöllur umræðu hér á Alþingi sem hv. þm. vonandi treystir sér til þess að taka þátt í. Hann er vonandi ekki svo hræddur við þetta að hann treysti sér ekki til þess að taka þátt í umræðunni.

Ég andmæli því sem hann segir, að Íslendingar eigi ekki að líta til allra átta. Jafnvel þótt hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sé á móti því að líta til allra átta þá er það skylda utanrrh. og utanrrn. á hverjum tíma að gera það. Menn geta nefnt það vírusa eða hvað annað. Ef það er vírus að sinna skyldum sínum þá er það góður vírus. En það er vondur vírus að neita að líta í kringum sig.