Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 14:48:30 (946)

1999-11-02 14:48:30# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[14:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hef verið sakaður um ýmislegt um dagana en sjaldan það að vera hræddur við umræður. Ég hef aðallega verið sakaður um hitt að tala of mikið og vera of mikið í umræðum.

Hér komu auðvitað fram hin efnismiklu rök Framsfl. sem við höfum heyrt af og til, að við séum bara á móti. Því var meira að segja haldið fram að ég sé á móti framtíðinni. Það er nú erfitt því að framtíðin tekur alltaf við af nútíðinni, af hverri einustu sekúndu og sekúndubroti. Eðlisfræðilega er snúið að vera á móti henni yfir höfuð og hefur lítið upp á sig því, maður neyðist inn í hana svo lengi sem maður dregur lífsandann.

Ég er á móti því að fórna sjálfstæði og hagsmunum Íslands með því að ganga inn í Evrópusambandið. Ég tel það hvorki þjóna hagsmunum okkar né samræmist það grundvallarskoðunum mínum og sjónarmiðum um hvernig ég vil sjá sjálfstætt og fullvalda íslenskt ríki þróast. En um leið er ég fylgjandi sjálfstæði þessarar þjóðar. Ég er fylgjandi sjálfsákvörðunarrétti okkar. Ég er fylgjandi yfirráðum okkar yfir fiskimiðunum og því að Íslendingar geti hér eftir sem undanfarin 50 ár, eða síðan 1918, borið ábyrgð á sjálfum sér í heiminum, ráðið sér sjálfir og verði ekki einhver útnári Evrópusambandsins sem lifi á styrkjum frá Brussel. Það er ekki sú framtíð sem ég sé fyrir íslensku þjóðina. Ég tel óskynsamlegt að láta málin hrekjast í þeirri stöðu sem þau eru í. Við eigum að ákveða til lengri tíma en eins til þriggja ára í senn, sem nemur einni skýrslugerð, hver framtíðarstefnumið Íslands eigi að vera í þessum efnum. Við eigum að byggja stöðu okkar upp samkvæmt því. Það skiptir máli að við vitum það. Hér er verið að fela hlutina. Það er verið að pakka þeim inn í siffon. Það er þannig. Ég hlýt bara að spyrja hæstv. utanrrh., herra forseti, með þínu leyfi: Er Halldór Ásgrímsson, formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., þeirrar skoðunar að leið Íslands eigi að liggja inn í Evrópusambandið? Já eða nei.