Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 15:42:19 (963)

1999-11-02 15:42:19# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), VS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Það er alltaf ákveðin stemming þegar hér fer fram umræða um utanríkismál. Utanríkismál skipta okkur miklu máli, enn meira máli með ári hverju.

Mér finnst ánægjulegt að fylgjast með þessari umræðu og heyra að við Íslendingar komum fram af fullri reisn í alþjóðlegu samstarfi. Virðing þjóðarinnar hefur farið vaxandi út á við. Við erum virkir aðilar að norrænu samstarfi, NATO, Evrópuráðinu, EES, Sameinuðu þjóðunum, og fleira mætti nefna. Það að vera sjálfstæð þjóð setur okkur skyldur en gefur okkur jafnframt fjölda tækifæri á sviði alþjóðasamstarfs sem nauðsynlegt er að nýta.

Eins og kom fram í upphafsorðum hæstv. utanrrh. þá gætir enginn hagsmuna okkar nema við sjálf. Ég vil þó halda því fram að með því að taka af myndugleik þátt í norrænu samstarfi, eins og við Íslendingar höfum gert, þá stöndum við aldrei alveg ein. Norrænu þjóðirnar koma fram saman út á við alltaf þegar kostur gefst og vegna þessa samstarfs hafa Íslendingar komist lengra og orðið meira áberandi í alþjóðlegu samstarfi en ella hefði orðið. Þess vegna er norræna samstarfið grunnur að alþjóðlegu samstarfi. Það vona ég að sem flestir séu sammála mér um.

Hitt er svo líka ljóst að þessar þjóðir hafa átt í deilum innbyrðis þó að svo sé ekki nú, en ég kem betur að því síðar.

Umsvif alþjóðasamastarfs hefur verið að aukast og hnattvæðingin mun halda áfram. Eigum við að taka þátt í þessu eða ekki? Ég segi: Að sjálfsögðu eigum við að vera með og um það ríkir orðið nokkuð góð samstaða á Íslandi.

Ég held því fram að haldið hafi verið afar vel á málefnum Íslands síðustu missiri. Við eigum ekki í deilum við nokkra þjóð. Í tíð hæstv. núv. utanrrh. hefur tekist að semja við nágrannaþjóðir okkar. Við áttum í fiskveiðideilum við þær flestar og ber þar hæst Smugudeiluna. Einnig var uppi deila við Dani um afmörkuð hafsvæði milli Grænlands og Íslands, svokallað Kolbeinseyjarmál. Þá var tekist á um stjórn veiða úr loðnustofninum á hafsvæðinu milli Íslands, Grænlands og Jan Mayen og skiptingu norsk-íslenska síldarstofnsins.

[15:45]

Nú ríkir friður í stað deilna við nágrannalöndin og það er afar mikilvægt og gefur mikla möguleika fram yfir það sem samningsákvæðin gefa til kynna. Í fyrsta lagi eru miklir möguleikar til samstarfs við Rússa á sviði fiskveiða og vinnslu og í þjónustu og framleiðslu fyrir sjávarútveginn. Óútkljáð mál voru þrándur í götu þessara viðskipta. Nú er einnig hægt með rammasamningi um samvinnu Íslands, Noregs og Rússlands á sviði sjávarútvegs að taka afla í Barentshafi í lögsögu Rússlands og Noregs og þjónusta í höfnum Noregs sem ekki var hægt að fá áður er nú fáanleg. Þetta gefur okkur allt möguleika til skikkanlegrar útgerðar.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér, það þarf þrautseigju auk mikillar vinnu íslenskrar utanríkisþjónsutu á ábyrgð hæstv. utanrrh. til að ná þessu fram. En ég veit að framtíðin er hér fyrst og fremst til umræðu enda skiptir hún meira máli en það sem liðið er. Um leið og ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir ræðu sína vil ég nefna hvað er stærsta viðfangsefni alþjóðasamfélagsins í mínum huga.

Hæstv. ráðherra nefndi það í ræðu sinni og Kofi Annan kom inn á það við upphaf 54. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna hvernig og hvenær hið alþjóðlega samfélag getur gripið inn í átök sem eiga sér stað innan landamæra fullvalda ríkja. Helför nasista gegn gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni er smánarblettur á mannkyninu. Margir sögðu sem svo að nokkuð sem þetta mundi aldrei gerast aftur. Alþjóðasamfélagið mundi ekki láta slíka atburði eiga sér stað aftur. Nú höfum við upplifað mannvonskuna og hörmungarnar á Balkanskaganum sem voru þó loksins stöðvaðar með inngripi frá NATO. Það þurfti árás til að stöðva Milosevic sem allir hefðu viljað komast hjá en alþjóðasamfélagið, vestrænar lýðræðisþjóðir áttu ekki annan kost.

Hörmungarnar halda áfram víða um heim, blásaklaust fólk verður að tækjum í baráttu einræðisherranna til að halda völdum. Lýðræði er hunsað. Þetta eru að mínu mati stærstu málin sem þarf að leysa í samskiptum þjóðanna og hljóta Sameinuðu þjóðirnar að vera sá vettvangur sem er líklegastur til að ná árangri. Það er óviðunandi að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna skuli ekki hafa komið sér saman um lausnir í þessu mikilvæga öryggismáli og mannréttindamáli.

Þegar við lítum okkur nær og hugsum um hagsmuni okkar Íslendinga fyrst og fremst þá verður ekki horft fram hjá því að Evrópumálin eru mikilvægustu málin á næstu árum. Þá geng ég út frá því að aðild okkar að NATO sé í föstum skorðum og varnarsamningurinn við Bandaríkin. Það er mikilvægt að unnið er að því af hálfu hæstv. utanrrh. að gera hlutlausa úttekt á starfi Evrópusambandsins. Sú skýrsla verður að vera grunnur að þeirri vinnu sem óhjákvæmilegt er að fara í til að við áttum okkur betur á möguleikum okkar og hvernig hagsmunum Íslands verður best fyrir komið til langs tíma litið.

Sem betur fer eru fáir á Íslandi sem hafa þá sýn til Evrópumála eins og fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ræða hans gekk mest út á að vilja ekki málefnalega umræðu. Rökin voru þau að hér ríkti góðæri, Íslendingar væru hamingjusamir þó svo við værum ekki í Evrópusambandinu. Sú umræða sem fram undan er á að mínu mati að snúast um hver staða okkar verði, t.d. ef EES-samningurinn líður undir lok. Mér fannst gæta ótrúlegrar þröngsýni í málflutningi þessa unga hv. þm. vil ég segja, en hins vegar sýndi öldungurinn, hv. 18. þm. Reykv., Sverrir Hermannsson, mikla víðsýni í máli sínu hér áðan.

Í máli hæstv. utanrrh. kom fram að róðurinn hafi þyngst í sambandi við að fá Evrópusambandsákvörðunum breytt og laga þær sérstaklega að íslenskum aðstæðum áður en þær eru felldar inn í EES-samninginn. Hins vegar kom fram að auðveldara hefði reynst að koma sjónarmiðum okkar á framfæri við tæknilegan undirbúning á byrjunarstigi. Það að geta haft áhrif á mál á meðan þau eru á mótunarstigi skiptir miklu máli. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvað hæstv. ráðherra á við þegar hann segir þetta. Höfum við sem sagt engin áhrif á pólitíkina, einungis á tæknilega hlið mála? Ég spyr því: Er það vegna þess að við sinnum málinu ekki sem skyldi, hugsanlega vegna manneklu, eða er þetta vegna þess að Evrópusambandið heldur EFTA-þjóðunum utan við starfið?

Ég held því fram að enn sem komið er hafi engin EES-mál verið lögfest hér á landi sem hafa komið sér illa fyrir samfélag okkar eða í raun verið í ósamærmi við okkar löggjöf almennt. Þetta er athyglisvert ef tekið er tillit til stóru orðanna sem féllu í umræðunni um málið á hv. Alþingi. Það er hins vegar niðurlægjandi að taka á móti póstinum frá Brussel og eiga nánast engan kost annan en þann að leggja blessun sína yfir hann.

Þessa dagana situr hæstv. umhvrh. 5. aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Þar er m.a. fjallað um framkvæmd Kyoto-bókunarinnar. Þær ánægjulegu fréttir hafa borist að kröfum Íslands hafi verið tekið betur nú í seinni tíð og sérstaða okkar hvað varðar að nýta endurnýjanlegar orkulindir hafi fengið hljómgrunn hjá aðildarríkjum samningsins. Þetta er gífurlegt hagsmunamál fyrir Ísland og hlýtur breið samstaða að ríkja um það. Það getur ekki verið að fyrir nokkrum hv. þm. vaki að reyna að nota alþjóðlega samninga til að ná fram pólitískum vilja sínum í sambandi við virkjanir, eða kannski ætti ég frekar að segja ekki virkjanir á Íslandi. Um það mál sem slíkt ríkir ekki samstaða í landinu og það verður tekist á í því máli. Það hlýtur hins vegar að vera meiri hlutinn sem ræður ferð og að niðurstaðan verði í samræmi við það.

Þó að árangur sé ekki í höfn hvað varðar þetta mikla hagsmunamál þá þarf að halda áfram á sömu braut og reyna til þrautar að fá aðrar þjóðir til að skilja mikilvægi þess fyrir umheiminn að endurnýjanlegar orkulindir verði áfram nýttar. Það er nú þegar orðið augljóst að tillaga stjórnarandstöðunnar frá sl. vori var frumhlaup, þ.e. tillagan um að fullgilda þá þegar Kyoto-bókunina. Þetta hlýtur að vera augljóst í dag.

Um þróunarsamvinnu er það að segja að þar er hægt að gera betur og við þurfum að gera betur. Það hefur þó verið viðleitni í þá átt á síðustu árum að gera betur með auknum fjárveitingum sem nema um 60 millj. kr. ári. Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna, sem hér er starfræktur, hefur farið vel af stað og verður nemendum fjölgað strax á næsta skólaári. Framlag Íslands er talið til þróunarmála en enn erum við Íslendingar engu að síður eftirbátar annarra nágrannaþjóða í framlögum til þróunarmála.

Í sambandi við viðskiptamál hefur átt sér stað stefnubreyting í tíð núv. hæstv. ráðherra og þar á ég við ráðningu viðskiptasérfræðinga hjá sendiráðum. Þessi nýbreytni hefur þegar skilað árangri fyrir atvinnulífið og því er mikilvægt að halda áfram á þeirri braut.

Eitt vil ég nefna að síðustu, hæstv. forseti, og það varðar mikilvægt hagsmunamál þjóðar okkar. Þar er ég að tala um nýja lotu samningaviðræðna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO. Þar er viðamesta verkefnið endurskoðun landbúnaðarsamningsins. Landbúnaður hér á landi stendur höllum fæti og þá sérstaklega sauðfjárræktin og því er mikilvægt að nýr samningur verði frekar til að styrkja íslenskan landbúnað en hitt og hvet ég eindregið til að unnið verði með það í huga.