Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 16:13:30 (966)

1999-11-02 16:13:30# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[16:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki möguleika á að koma að öllu sem hv. þm. spurði mig um en fyrst varðandi kostnað við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það segir sig sjálft að við höfum ekki möguleika á að reka þann samning einir og sér eins og gert er í dag. Ég býst við því að segja megi að í íslenska utanrrn. komi þrír starfsmenn að þeim samningi en í norska utanrrn. eru þeir milli 70 og 80. Hjá EFTA eru milli 60 og 70 manns sem vinna ekki síst að því að framfylgja þessum samningi en Sviss kostar um helming af þeirri starfsemi, jafnvel þó verulegur hluti af starfsliðinu sé upptekinn við að reka samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það liggur líka ljóst fyrir að það er margt starfslið hjá Evrópusambandinu sem vinnur að málinu þannig að það segir sig sjálft að það er útilokað að hægt verði að reka samninginn með einhverjum sambærilegum hætti og gert er í dag ef þessi ríki, Sviss og Noregur, ákveða að ganga í Evrópusambandið. Nú eru sennilega minni líkur til þess að það gerist hratt að því er Sviss varðar eftir kosningar þar án þess að ég vilji leggja dóm á það.

[16:15]

Það liggur hins vegar fyrir að þessi mál verða á dagskrá í Noregi innan einhverra ára. Við verðum að reyna að meta það í réttu ljósi. En það er algerlega útilokað að við getum rekið þennan samning með sambærilegum hætti. Nógu erfitt er það í dag. Það má segja að við séum mjög veikburða gagnvart hinu stóra Evrópusambandi í að reka þennan samning jafnvel þó það hafi gengið skammlaust.