Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 16:38:24 (976)

1999-11-02 16:38:24# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[16:38]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir svar hans hér. Ég tók að sjálfsögðu eftir því að stór kafli af ræðu hæstv. utanrrh. fjallaði einmitt um breytingar á varnar- og öryggismálum í Evrópu og breytingar VES og NATO með tengslum við aukna aðild ESB að þeim málaflokki. Ég fylgist að sjálfsögðu með því hvernig ráðuneytið vinnur að þessu og ég er mjög ánægður með það hvernig utanrrn. hefur sinnt málinu á síðustu mánuðum. Ég hygg að allir þeir sem eru inni í utanríkismálum geri sér mikla grein fyrir hvað þetta getur þýtt varðandi starf innan NATO og hvaða flokkadrættir, eins og utanrrh. kom réttilega inn á í ræðu sinni, gætu orðið uppi innan NATO ef sum ríki Evrópu eru höfð út undan í þeim ákvarðanatökum sem á þó að gera í nafni NATO. Það vita flestallir hér inni að hvert einstakt NATO-ríki hefur neitunarvald og ef slíkt ástand kæmi upp færu einstök ríki innan Evrópu sem eru í NATO en telja sig úti í kuldanum að beita slíkum áhrifum. Þá er NATO orðið máttvana og að sjálfsögðu vilja menn það ekki.

Ég fagna því að hæstv. utanrrh. ætlar að taka þátt í þeim mikilvægu fundum sem eru fyrirhugaðir á næstu vikum og mánuðum varðandi yfirtöku ESB á málefnum VES. Það er mjög mikilvægt að svo verði en ég er ekki frekar en aðrir viss um að það takist á næsta ári að innlima þau samtök þannig að VES falli innan ESB á svo skömmum tíma. Ég tel að mjög mikilvægt sé að þingið fái að fylgjast vel með því hvernig þetta gerist og að við fáum að vera með í þeim fundum sem skipta máli á næstunni.