Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 17:19:32 (990)

1999-11-02 17:19:32# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[17:19]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur flutt í dag. Hann hefur verið ötull og virtur í sínu embætti á sviði utanríkismála og víðar og býsna margt hefur gerst í tíð hæstv. utanrrh. í samskiptamálum sem vert er að minnast á. Eitt af því sem við höfum lítið rætt í dag en skiptir heilmiklu máli er byltingarkennd breyting á þróunaraðstoð Íslendinga í tíð hæstv. utanrrh. Við vorum okkur reyndar lengi til skammar í því að styrkja við þróunarstarf en sem betur fer hefur orðið breyting á því.

Það hefur komið fram í umræðunni að við erum auðvitað ekki lengur einangruð eyja. Við búum í gjörbreyttu samfélagi, tæknilega, samskiptalega, viðskiptalega og menningarlega og í raun og veru má segja að þetta hafi gerst á ótrúlega skömmum tíma. Íslendingar ferðast um heiminn í auknum mæli, ekki einungis unga fólkið okkar, heldur einnig hin eldri kynslóð og þá kynnist fólk því á hve margan hátt við Íslendingar höfum það gott hér heima.

Við í iðnaðarnefnd vorum í morgun á fundi hjá Samtökum iðnaðarins þar sem rætt var um málefni Íslands og á hvern hátt EES-samningurinn hefur haft áhrif á innra starf á Íslandi og væri vissulega vert að taka saman hverju sá samningur hefur skilað fyrir íslenska þjóð. Auðvitað voru átök um það þegar menn veltu fyrir sér EES-samningnum en þó held ég að þegar menn horfa til baka höfum við verið að taka rétt skref og almennt eru menn sammála um að sá samningur hafi skilað okkur heilmiklum árangri.

Á síðasta kjörtímabili tók ég þátt í starfsemi Vestnorræna ráðsins sem er ráð þingmanna frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi. Það eru mjög merkileg samtök sem voru stofnuð árið 1985 og við eigum í raun mjög margt sameiginlegt með þessum ágætu grannríkjum okkar. Eitt af því sem skiptir þessi þrjú grannríki höfuðmáli er hafið sem umlykur þessi lönd. Séu menn að horfa fram á veginn, horfa til Evrópubandalagsins, og jafnvel samskipta þessara ríkja við þau bandalög þá ber okkur auðvitað að standa og vinna með þessum grannríkjum okkar.

Á síðasta kjörtímabili héldum við ráðstefnu þar sem við vorum að kynna málefni Vestnorrænu landanna fyrir ungu fólki á aldrinum 18--25 ára. Það var mjög merkileg ráðstefna þar sem Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti okkar, flutti aðalræðu þar sem við vorum að velta fyrir okkur mismunandi menningu þessara þriggja þjóðríkja. Þar kom í ljós mikill áhugi Færeyinga fyrir sjálfstæðismálum og var gaman að fylgjast með unga fólkinu frá Færeyjum, hversu mikinn áhuga það hafði á stjórnmálum, mun meiri áhuga en íslensku þátttakendurnir höfðu. Við ræddum líka mikið um það tungumál sem við notum í þessum norrænu samskiptum, bæði í gegnum Norðurlandaráð og Vestnorræna ráðið þar sem við notum mest dönsku eða norræn mál. Greinilegt er að íslensk ungmenni fá ekki mikla æfingu í því að nota dönsku. Það kom mjög vel fram á þessari ráðstefnu að íslensku þátttakendurnir vildu mun frekar tala ensku en dönsku. Þetta eru atriði sem við þurfum að velta fyrir okkur vegna þess að danska er höfuðmál í þessum samskiptum.

Við höfum talað nokkuð um umhverfismál í umræðunni um skýrslu utanrrh. Sjálfur þykist ég vera umhverfissinni. Auðvitað er hægt að leggja ýmsa merkingu í það að vera umhverfissinni en ég held nú að þegar grannt er skoðað séu flestir Íslendingar, sem betur fer, umhverfissinnar. Á Grænlandi, þar sem svokallaðir umhverfissinnar úti í heimi börðust mjög gegn því að selur væri drepinn, var mjög merkilegt að skynja að þessi svæði voru nánast auð og fólkið hafði lítið að gera og ferðast síðan nokkrum mánuðum síðar til Spánar og verða vitni að því hvernig Spánverjar drepa nautin sín í nautaatshringnum. Ég hef ekki séð umhverfissinna almennt standa á pöllum á Spáni til að mótmæla því hvernig naut eru drepin á Spáni. Það er merkilegt að velta þessum hlutum fyrir, skynja vald og mátt peninganna í þessum efnum. Það var mjög létt að ráðast á þjóðríki eins og Grænland sem hefur haft aðaltekjur af margs konar veiðum. Í raun er mjög nöturlegt að upplifa svona hluti.

Við getum haft víðtæka samvinnu við þessi grannríki okkar. Sú samvinna skiptir öll þessi lönd miklu máli. Það var líka sérkennileg tilfinning þegar einn af ráðherrum í grænlensku ríkisstjórninni sagði frá því að foreldrar hans bjuggu á Thule á Grænlandi um það leyti sem að Bandaríkjamenn komu þar. Árið 1953 fluttu þeir fólkið frá Thule til Nuuk og fékk fjölskyldan hans fjóra eða fimm klukkutíma til að yfirgefa heimili sitt á Thule og flytja til Nuuk. Við getum vart sett okkur í spor þessa fólks. Þegar þetta sama fólk fór að búa í blokkum í Nuuk átti það auðvitað mjög erfitt með að aðlagast þeim aðstæðum sem Vesturlandabúar, eða Danirnir, voru búnir að byggja upp þar. Það er vert fyrir okkur að velta öllum þessum málum fyrir okkur þegar við erum að fjalla um utanríkismál, m.a. vegna þess að það er svo ótrúlega stutt síðan að þessir atburðir gerðust.

Ég hef líka átt þess kost að fara á ráðstefnur Eystrasaltsríkja. Ég fór árið 1996 á ráðstefnu Eystrasaltsríkja sem haldin var í Gdansk í Póllandi. Það var mjög merkilegt að hlusta á þær ræður sem þar voru fluttar. Mér fannst mjög sláandi þegar einn af ráðherrum Póllands var að tala um hinn svarta markað í Eystrasaltsríkjunum og talaði um að aðalútflutningsvara Pólverja á hinum svarta markaði væru konur og börn í klámiðnaði, amfetamín en innflutningurinn var aðallega stolnir bílar. Þetta er allt saman að gerast í kringum okkur, þetta er allt saman í næsta nágrenni við okkur og mér finnst vert að vekja athygli á þessum atriðum.

Ég drap aðeins á umhverfismálin. Það var mjög sérkennilegt að upplifa það í fyrra, ef ég man rétt, þegar Keikó kom til Íslands og fylgjast með svokölluðum umhverfissinnum sem fylgdu Keikó til landsins með ótrúlega stórri og belgmikilli herflugvél af gerðinni C17 og skynja peningana á bak við þetta kvikindi, ef ég má nota það ljóta orð um háhyrninginn. Þegar við erum að fjalla um þessi mál er alveg þess virði að velta upp öfgunum í þessu sambandi.

Ég hef nýlega tekið sæti í Norðurlandsráði og ég hlakka mjög til þess að takast á við þau verkefni. Það var skemmtilegt og merkilegt að upplifa það í Berlín og í raun mjög táknrænt þegar að sendiráð Norðurlandanna voru opnuð í Berlín í síðasta mánuði, það sýnir í raun og veru í verki samtakamátt þessara þjóða. Þetta eru mikilvægustu samskipti okkar í utanríkismálum, þ.e. samstarf okkar í Norðurlandsráði og fram undan er Norðurlandsráðsþing í Stokkhólmi þar sem fjallað verður um mjög mörg spennandi mál. Eitt af því sem fjallað verður um eru landamæralaus Norðurlönd þar sem menn eru að velta fyrir sér þeim hindrunum sem eru þó á samskiptum þessara ríkja. Ég er viss um að það á eftir að verða afar spennandi umræða. Það minnir okkur líka á skyldur okkar í þinginu að við höfum öflugt starfsfólk á þessum sviðum sem getur aðstoðað okkur þingmennina í þessum málaflokkum.

[17:30]

Norðurlandamálin eru sérstakur málaflokkur og þinginu ber skylda til að útvega okkur gott og öflugt starfsfólk til þess að vinna að þeim málum. Við höfum borið gæfu til að hafa hér mjög margt gott starfsfólk sem við höfum því miður verið að missa frá okkur að undanförnu en vonandi verður ráðin bót á því. Sem stendur vantar okkur hæft og gott starfsfólk til að sinna Norðurlandamálum.

Við erum háð, eins og ég sagði í upphafi máls míns, samskiptum við önnur ríki. Við lifum á því að selja út matvöru og vonandi verður það í auknum mæli, ekki einungis fisk heldur einnig landbúnaðarvörur. Við erum auðvitað sannfærð um að við framleiðum hvað besta matvöru á þessum hnetti.