Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 18:07:19 (997)

1999-11-02 18:07:19# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[18:07]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst út af þessum einkavæðingum. Mér finnst mjög undarlegt að þegar hv. þm. heyrir orðin fjárfesting einkaaðila, þá er eins og hann umhverfist. Veit hv. þm. ekki að það er mjög mikilvægt að fyrirtæki í heiminum fjárfesti í þróunarlöndunum, taki þátt í uppbyggingu atvinnulífsins þar? Það vill nú svo til að sú ræða sem hv. þm. vitnaði hér til og haldin var í Washington á sl. ári, ef ég man rétt, var ekki bara haldin þar fyrir Íslands hönd. Hún var að vísu samin af okkur að mestu leyti en hún var flutt fyrir hönd allra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna líka þannig að allar þessar ríkisstjórnir lögðu blessun sína yfir þessa ræðu. Það vill svo til að sá sem hér stendur fékk sérstakar þakkir frá Afríkuþjóðum fyrir þessa ræðu og m.a. skrifaði fjármálaráðherra Suður-Afríku mér sérstakt bréf til þess að lýsa ánægju sinni með að málefni Afríku voru þarna tekin fyrir með skynsamlegum hætti eins og hann taldi. Hv. þm. má ekki umhverfast þó að nefnt sé að einhverjir fjárfesti aðrir en opinberir aðilar. Það er bara liðin tíð, hv. þm., að allt komi úr ríkissjóði eins og hv. þm. virðist álíta.

Um aðra hluti sem hér hafa komið fram kem ég kannski að síðar. Það er út í hött að halda því fram að við fylgjum einhverjum skipunum frá Washington og NATO. Ég hef skilið hv. þm. þannig að hann telji að afskiptaleysi eigi að vera alls staðar. Hann gagnrýnir afskiptaleysi í nokkrum löndum en svo gagnrýnir hann líka afskipti í Kosovo, Írak og í Bosníu jafnvel þótt það sé á vegum Sameinuðu þjóðanna þannig að það er ekki heil brú í þessum málflutningi þingmannsins ár eftir ár.