Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 18:11:59 (999)

1999-11-02 18:11:59# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[18:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sakar mig um vanstillingu. Það má vel vera að menn verði nokkuð þreyttir á því að hlusta á þennan málflutning ár eftir ár. Afskiptin í Írak eru með fullu samþykki Sameinuðu þjóðanna. Við erum aðilar að Sameinuðu þjóðunum, berum ábyrgð á því. Það er hins vegar til umræðu þar að breyta þessari afstöðu. Við erum að vinna því fylgi innan Sameinuðu þjóðanna að þær skipti sér meira af slíkum brotum þannig að þeir glæpamenn sem fyrir þeim standa séu hvergi óhultir og þeir hiki við að drepa saklaust fólk.

Atlantshafsbandalagið hefur komið að málum í Kosovo og í Bosníu. Ég hef skilið hv. þm. þannig að hann hafi verð mjög andvígur því. (ÖJ: Það er rétt.) Er hv. þm. að biðja um að Atlantshafsbandalagið hafi sambærileg afskipti í Tsjetsjeníu? Ég fæ ekki skilið þetta. (ÖJ: Ég er ekkert að biðja um það.) Hann talar mjög fallega um að Sameinuðu þjóðirnar eigi að sjá um þetta. Og það að klappa á kollinn á mönnum eins og honum er svo tamt að segja, ef það er einhvers staðar samstaða með einhverjum, þá heitir það á hans máli að klappa á kollinn. Það er eins og hv. þm. vilji vera í stöðugum átökum við allt og alla. Það sem við erum að gera innan Sameinuðu þjóðanna er að vinna því fylgi að Sameinuðu þjóðirnar taki á þessum málum með ákveðnari hætti. Og það þýðir á mæltu máli að stórveldin hafi ekki sama neitunarvald og þar er. Er það rétt t.d. að Kínverjar geti komið í veg fyrir að alþjóðasamfélagið hafi afskipti af fjöldamorðum? Er það rétt að Rússar geti haft neitunarvald í því sambandi, eða Bandaríkjamenn, eða Frakkar, eða Bretar? Um það snýst þetta mál.