Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 18:24:09 (1002)

1999-11-02 18:24:09# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[18:24]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil benda á í sambandi við það sem hv. þm. sagði að á síðasta þingi lagði utanrrn. fram bráðabirgðaskýrslu um stöðu Íslands að því er varðaði öryggis- og varnarmál. Þeirri skýrslu var mjög vel tekið, m.a. af stjórnarandstöðunni sem grundvelli að frekari umræðu um þau mál. Ég hef áður lýst því yfir að ég er tilbúinn til þess að stjórnarandstaðan komi að því máli í gegnum utanrmn. og við höfum rætt það í utanrmn. hvernig áfram verður unnið að því starfi. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og það kemur jafnframt inn á þá bókun sem hér hefur verið til umræðu. Utanrrn. hefur þegar hafið undirbúning að þeim viðræðum. Við höfum rætt það allnokkuð við Bandaríkjamenn. Við gerum ekki ráð fyrir gífurlegum breytingum í þessu sambandi. Við teljum nauðsynlegt að það lið sem er hér á landi verði áfram, að ekki sé réttlætanlegt að flugvélarnar fari í burtu. Ef þær fara í burtu þá fer björgunarsveitin jafnframt.

Við höfum lagt áherslu á að þróa þetta mál áfram með virkari þátttöku okkar, hafandi í huga þá staðreynd að við getum ekki einir þjóða sinnt björgunarstarfi á Atlantshafi. Meðal annars þess vegna er fyrirhuguð á næsta ári og verður á næsta ári haldin æfing innan Atlantshafsbandalagsins undir heitinu Samvörður, svokallað Partnership for Peace, sem fjallar um björgunarsamstarf á Norður-Atlantshafi. Við væntum þess að allar þjóðir sem liggja að þessu hafi komi að málinu, þar með talið Rússar. Rússar komu að æfingunni hér fyrir tveimur árum og við teljum mjög mikilvægt að auka samstarfið við þá.