Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 02. nóvember 1999, kl. 19:19:21 (1014)

1999-11-02 19:19:21# 125. lþ. 17.5 fundur 108#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 125. lþ.

[19:19]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf ekki hafa mörg orð um þetta. Batnandi manni er best að lifa varðandi yfirlýsingu hv. þm. um EES að rétt hefði verið að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Gott að heyra það sjónarmið. Um þetta erum við sammála.

Ég er honum líka sammála um að æskilegt væri að fá sem kröftugasta umræðu um Evrópumálin í þjóðfélaginu, ég tel það vera gott. En menn eiga að koma heiðarlega fram í þeirri umræðu og segja hug sinn í því efni vegna þess að við vitum nokkurn veginn hvernig landið liggur. Menn telja vera grátt svæði hvað sjávarútvegsmálin snertir, ýmsir telja það. Ég tel þetta vera nokkuð skýrt. En að öðru leyti er ljóst hverjir valkostirnir eru og mér finnst ekki ganga að stjórnmálamenn komi þannig fram mánuð eftir mánuð og ár eftir ár, að segja að það séu svo mörg spurningarmerki að þeir geti ekki gert upp hug sinn. Það væri fróðlegt að heyra hv. þm. Össur Skarphéðinsson segja okkur tæpitungulaust hvað hann vill gera. Vill hann að við göngum í Evrópusambandið?